Konur í skugga karla

Gleðileg eru þau átaksverkefni sem efnt er til á Íslandi árlega í þágu góðs málstaðar. Þannig er átakið Bleika slaufan til mikillar fyrirmyndar. Dagur Bleiku slaufunnar er til að minna á baráttu við krabbamein, tileinkaður árvekni í baráttu gegn krabbameini í konum.

Sem fyrr segir frábært framtak. En ég hnaut við mynd sem birtist á facebook-síðu Bleiku slaufunnar. Á myndinni voru nokkrir huggulegir og geðþekkir karlar sem allir voru með bleikar slaufur. Vel við hæfi, gott hjá þeim. Það sagði í texta með myndinni að kona nokkur hefði prjónað slaufurnar. Ekki þó hver þessi klára og skapandi kona væri, sagan af nafnlausu konunni endaði eins skjótt og hún hófst, en eftir lifði afurðin, fimm brosandi flottir karlar með fimm flottar bleikar slaufur um hálsinn.

Ég lagðist í smá rannsóknarvinnu. Komst að því að ósýnilega konan heitir Sigrún. Í mínum augum fengu karlarnir á myndinni kredit fyrir að klæðast bleikum slaufum sem Sigrún prjónaði en Sigrún var ósýnileg á baráttusíðunni meðan karlarnir kynntu með brosandi andlitum sínum átakið um Bleiku slaufuna. Sumum kann eflaust að þykja að sá sem hér skrifar leitist hreinlega við að vera leiðindakarlinn í annars góðu partýi. En ég er aðeins að setja fram nokkrar vangaveltur um kerfi, felli enga persónulega dóma. Ef Sigrún kaus sjálf að vera ósýnileg þegar hún lánaði vinnufélögum sínum bleiku slaufurnar til að skarta á Degi Bleiku slaufunnar breytir það nokkru, en e.t.v. ekki öllu.

Sumar konur hafa lært að best sé að láta ekki mikið á sér bera. Ósýnileiki kvenna í samfélaginu er staða sem karlar hafa í tímanna rás passað að viðhalda. Að draga verk kvenna fram í sviðsljósið og framlag þeirra til samfélagsins er eitt höfuðverkefni nútíma jafnréttisbaráttu. Fjölmiðlar hafa hér mikla ábyrgð og sú ábyrgð nær líka til facebook. Það sem Bleika slaufan setur á oddinn í kynningu á baráttunni skiptir máli.

Hvaða saga sem liggur á bak við prjónuðu slaufurnar fimm ætla ég að nota tækifærið hér og nú til að brýna sjálfan mig og kynbræður mína til að minnast þess stundum þegar við stígum fram og gumum af sigrum, að í allnokkrum tilvikum má þakka þann árangur einhverju ósýnilegu framtaki, sem fram til þessa hefur verið kynbundið og er ekki unnið af okkur sjálfum.

Sagan hefur fram til þessa bæði verið skrifuð og mynduð af körlum. Hún hefur verið sögð í tímaröð sem miðast við afrek karla. Við höfum með áherslum okkar meðvitað haldið konum utan Stóra sviðsins og þótt margt hafi breyst til batnaðar í jafnréttislegu tilliti eimir enn eftir af þessari sögu, bæði hjá körlum og konum. Við slepptum því áður meðvitað að gera þátt kvenna í sögunni að einhverju sem okkur fannst skipta máli. Við höfum gengið svo langt að krefjast þess að konur elskuðu okkur og virtu, að þær elskuðu kúgara sína, eins og John Stuart Mill benti á að gerði hlutskipti kvenna fyrr á tímum verra en hlutskipti þrælsins.  Enn þurfa konur að leggja sig meira fram en karlar til að ná sýnileika og viðurkenningu.

Nú á jafnréttisárinu 2015 þegar 100 ár eru liðin frá því að konur fengu fyrst kosningarétt skiptir miklu að segja það upphátt að konur fengu ekki þann rétt með því að sætta sig við að vera valdalausar eða ósýnilegar hvað þá að það hafi gagnast þeim að bíða eftir að karlarnir lyftu þeim til metorða. Konur væru enn án kosningaréttar ef þær hefðu ekki stigið fram, tekið baráttuna og gert sig sýnilegar. Og enn þurfa konur oft að berjast fyrir eigin tilvist og sýnileika.

Þegar um kynbundið átak undirokaðs hóps er að ræða er sérlega mikilvægt að beina sjónum ekki bara að sértækum hagsmunum heldur hinu stóra samhengi í baráttu allra kvenna. Jafnréttismál varða allar konur og alla karla en öðru kyninu kemur það að jafnaði til góða fremur en hinu að veröldin breytist ekki allt of hratt eða mikið. Þess vegna er mikilvægt að vera á verði. Vegna þess að við karlar njótum enn ýmissa forréttinda. Þeir sem eru ósammála því ættu kannski að hugleiða að forréttindi eru þeim síst meðvituð sem njóta þeirra helst. Þess vegna verðum við öll að halda vöku okkar.