Lesendur hafa með nokkrum tölvupóstum síðustu daga haft samband við þann sem hér skrifar. Í póstunum er bent á einkar orðljóta umræðu á facebook í kjölfar þáttar sem ofanritaður stýrði í sjónvarpi Hringbrautar sl. mánudagskvöld.
Mér hefur verið bent á að ritari Sjálfstæðisflokksins, ungur laganemi, hafi þurft að þola svo mikið níð um sjálfa sig á samfélagsmiðlum eftir þátttöku sína í Kvikunni á Hringbraut að enginn ungur pólitíkus ætti að þola slíkt. Ég er því fullkomlega sammála. Mér finnst ég bera nokkra ábyrgð á þessu því það var ég sem bað hana að koma í þáttinn og það var mikið að gera hjá henni en eigi að síður kom hún, kannski hugsandi um að það ættu pólitískir trúnaðarmenn almennings að reyna að gera þegar fulltrúar fjölmiðlanna falast eftir. Það er leitt að sjá þennan eftirskjálfta. Ég ætla að leyfa mér að spyrja femínískra spurninga í sömu andrá.
Einn bloggari sem mjög hefur látið að sér kveða á samfélagsmiðlum er í hópi þeirra sem deilt hafa rafrænum hlekk þar sem sjá má síðasta Kvikuþátt Hringbrautar. Gargandi frekjugæs og ræskni er sú einkunn sem ritari Sjálfstæðisflokksins fær hjá honum og ekki batnar ástandið í athugasemdum. Kolheimsk tussa og stelpuræfill eru þar meðal níðyrðanna. Manni eiginlega fallast hendur.
Bæði sem borgari og blaðamaður verð ég að segja að burtséð frá pólitískum skoðunum fólks og hvernig fólk í pólitískum trúnaðarstöðum kemur fram í umræðuþáttum og hvað það segir eða hvernig finnst mér ekkert geta réttlætt að 25 ára gamall ungur laganemi þurfi að lesa þau ummæli um sjálfa sig að hún sé kölluð skrípi, tussa og stelpuræfill.
Ég tek líka eftir að tvö ljótustu orðanna eru kynbundin. Orðræða er valdatæki sem hefur miðast að því að halda konum niðri og ofsinn, skotleyfið, vekur í mínu femíníska hjarta upp spurningar hvort ungur aldur Áslaugar Örnu plús kyn séu enn árið 2016 mörgu fólki þyrnir í augum, að ungar konur skuli njóta réttinda og áhrifa og að það veki sérstakan pirring ofan á annað sem leiði til svo sorglegrar umræðu.
Þrátt fyrir að mörg skref hafi unnist í jafnréttisbaráttunni voga ég mér að leiða líkum að því að ung kona sé dæmd harðar af orðum sínum en gamlir valdamiklir karlar samanber ofangreint.
Með því legg ég ekkert mat á efnisatriði þáttarins og það sem kom þar fram. Mér er hreinlega ofboðið og illt í hjartanu yfir svo orðljótri umræðu. Hún kannski meiðir ekki þá sérstaklega sem komið hafa sér upp skrápi en hvorki byggir hún brýr meðal ólíkra skoðanahópa pólitískt né verður nokkuð gott um hana sagt.
Þetta er óþolandi ástand.
Ein leiðin að betra Íslandi er að huga að því að orðum fylgir ábyrgð og að við verðum dæmd af því hvernig við förum með þá ábyrgð.
Þá er líka ágæt regla að það sem þú treystir þér ekki til að segja við þann sem þú hittir ættirðu kannski ekki að segja á opinberum eða rafrænum vettvangi.
Það verður að skera upp herör gegn níðyrðum á netinu. Þetta gengur ekki svona.
Og fari það fyrir brjóstið á einhverjum að ljótustu orðin um ritara Sjálfstæðisflokksins hafi ratað hér í fyrirsögn er það ágætt. Það sýnir þá e.t.v. sameiginlega sómakennd sem við gætum nýtt til að veita svona orðsöfnuði aukið aðhald í framtíðinni. Sú barátta getur ekki bara orðið krúttleg. Það getur verið skítadjobb að taka til í húsinu okkar sameiginlega, hinu íslenska þjóðfélagi...
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar til varnar ritara Sjálfstæðisflokksins og lýðræðinu í landinu birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)