Kolféll fyrir Crème Brulee að hætti Gulla Arnars

Berglind Ósk Haraldsdóttir er ástríðurkokkur og er einn að eigendum Eldhústöfra þar sem hægt er að fá hið magnaða eldhús töfratæki Thermomix sem hefur einfaldað störf fjölmargra í eldhúsinu til muna. Berglind er iðin við að safna girnilegum uppskriftum að sér til jafns við það að halda í hið gamla góða. Við fengum hana til að segja okkur aðeins frá sínum baksturs siðum og venjum fyrir jólin og deila með okkur sinni uppáhalds eftirréttar uppskrift.

FB--Berglind Ósk Haraldsdóttir-05.jpg

Berglind Ósk Haraldsdóttir er mikill sælkeri og nýtur þess að gera eftirrétti. Myndir Ernir /Fréttablaðið.

Lagkaka, ís í formi og síðan þessi

Áttu þína uppáhalds kökur eða eftirrétti sem þú útbýrð á aðventunni? „Lagkakan hennar ömmu á Súganda er ómissandi fyrir öll jól. Uppskriftina fengum við fyrst hjá henni þegar við fluttum til Danmerkur og söknuðum Íslands ógurlega mikið fyrstu jólin okkar þar. Amma á Súganda er reyndar amma mannsins míns, Guðrún Guðjónsdóttir á Suðureyri. Uppáhalds eftirrétturinn minn hefur alltaf verið ís í hvaða formi sem er, sem er mjög furðulegt því mér er alltaf kalt. Ég hef samt undanfarið verið að reyna að þroska eftirréttasmekk minn og núna er uppáhaldseftirrétturinn minn heimagert Crème Brulee.“

Hjálparkokkurinn Thermomix reddar málunum

Berglind bakar hæfilega mikið í aðventunni og velur smákökurnar að kostgæfni. „Ég á fjórar dætur fæddar árin 2003-2011 og ég verð að viðurkenna að þegar þær voru yngri þá hreinlega hafði ég ekki alltaf orku í það. En nú þegar þær eru orðnar eldri og ég komin með hjálparkokkinn Thermomix í eldhúsið þá er þetta lítið mál og bara gaman. Við förum sparlega með sykurinn og bökum bara hæfilega mikið held ég, fáar sortir en góðar. Auk lagkökunnar bökum við alltaf piparkökur, súkkulaðibitakökur og lakkrístoppa og núna reyndar tromptoppa. Mamma mín færir okkur svo mömmukökur og amma vanilluhringi.“

Aðventan á að vera afslöppuð og kósí

Hvað finnst þér skemmtilegast við aðventuna? „Mér finnst þetta yndislegur tími. Ég set upp jólaljósin í byrjun nóvember og mest af jólaskrautinu mánuði fyrir jól. Jólatréð fer líka snemma upp og fær helst að standa upplýst í fullum skrúða í stofunni frá byrjun desember. Mér finnst bara mjög gaman að brjóta upp hversdaginn í svartasta skammdeginu með extra huggulegheitum heima. Jólasveinninn er vel skipulagður með skógjafir og ég kaupi jólagjafirnar snemma. Ég tek enga sérstaka jólahreingerningu, finnst betra að geyma svoleiðis fram á vor. Aðventan á að mínu mati að vera afslöppuð og snúast um gera eitthvað kósí fyrir sjálfan sig og fjölskylduna.“

Bragðgóður sparieftirréttur sem gleður

Við fengum Berglindi til að deila með okkur sinni uppáhalds eftirréttar uppskrift sem er passar einstaklega vel yfir hátíðarnar„Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur er frá Gulla Arnari bakara í Hafnarfirði en hann hélt einmitt Thermomix eftirréttanámskeið rétt fyrir covid. Ég var aldrei sérlega áhugasöm um eldamennsku og bakstur en Thermomix hefur gjörbreytt því viðhorfi mínu og ég hef öðlast meira sjálfstraust á þessu sviði sem að gerir hreinlega daglegt líf léttara því ég kýs að gera ekki málamiðlanir þegar kemur að góðri næringu og neysluvenjum. Ég kolféll fyrir Crème Brulee uppskriftinni hans enda er hún mjög auðveld en samt flottur og mjög bragðgóður sparieftirréttur. Lúkkar mjög fagmannlega allavega.“

Thermomix Crème Brulee (Gulli Arnar)

380 g rjómi

130 g nýmjólk

115 g sykur

½ vanillustöng, bara fræin

125 g eggjarauður

  1. Hitið ofninn í 140°C, setjið vatn í djúpa ofnskúffu og hitið inn í ofninn
  2. Allt hráefnið er sett í blöndunarskálina og hitað 5 mín/60°C/hraði 2,5
  3. Takið ofnskúffuna úr ofninum og setjið 8-10 keramikskálar í hana (vatnið á að ná upp á hálfar skálarnar)
  4. Skiptið blöndunni jafnt í keramikskálarnar og bakið í vatnsbaði í 35 mín (140°C)
  5. Látið kólna smástund og setjið síðan í kæli í a.m.k. 4 klst. (ekki verra að geyma yfir nótt í kæli)
  6. Stráið smá hrásykri yfir hverja skál og brennið með gasbrennara áður en borið fram.

Gleðilega hátíð.