Enn ein Gallupkönnunin mælir hrun í fylgi ríkisstjórnarflokkanna og stórsókn Samfylkingar. Um mjög stóra könnun er að ræða, yfir 10 þúsund voru spurðir og um helmingur þeirra svaraði. Spurningin var að venju hvaða flokk menn vildu vilja ef kosið væri núna. Margt merkilegt og áhugavert kemur fram í þessari könnun. Hún mælir fylgi Sjálfstæðisflokksins einungis 18,2 prósent sem gæfi honum 12 þingmenn og fylgi Vinstri grænna telst enn á ný vera 5,5 prósent sem er nærri þeim lægstu mörkum sem þarf til að fá fulltrúa kjörna á þing. Vinstri græn eru við það að falla út af Alþingi, fengju nú 3 þingmenn en höfðu átta í síðustu kosningum.
Framsókn tapar gríðarlega. Fylgið er komið niður í 8,4 prósent og þingmannafjöldinn fer úr 13 þingmönnum í 6. Sú niðurstaða gæti leitt til þess að flokkurinn fengi einungis einn mann kjörinn á öllu höfuðborgarsvæðinu og þannig væru þrír ráðherrar flokksins í fallhættu miðað við sömu uppstillingu og í kosningunum 2021. Framsóknarmönnum svíður ekki síður að Miðflokkurinn er nú orðinn stærri samkvæmt þessari mælingu. Sigmundur Davíð, sem hrökklaðist úr Framsókn eftir að hafa leitt flokkinn til stórsigurs, hefur nú gert Miðflokkinn að þriðja stærsta flokki landsins, ef marka má könnun Gallups, með 10,9 prósent og fengi 7 þingmenn kjörna. Fylgi Miðflokksins er nú um 60 prósent af öllu fylgi Sjálfstæðisflokksins en talið er að óánægjufylgi úr Sjálfstæðisflokknum streymi nú til Sigmundar Davíðs og félaga hans sem eru lengst til hægri í íslenskum stjórnmálum.
Samfylkingin mælist nú með sitt mesta fylgi í 15 ár, 30,6 prósent, sem myndi skila flokknum 20 þingmönnum. Fylgið hefur rúmlega þrefaldast frá síðustu kosningum. Fengi Samfylkingin 20 þingmenn má vænta þess að þeir skiptust þannig að úr Reykjavík kæmu níu þingmenn, fimm úr Suðvestur, tveir úr Suðurkjördæmi, einn úr Norðvestur og þrír úr Norðausturkjördæmi. Þetta er byltingarkennt. Nú mælist fylgi Samfylkingarinnar svipað og allra þriggja stjórnarflokkanna samtals. Þeir hafa tapað 17 þingmönnum samtals á meðan Samfylkingin virðist ætla að bæta við sig 14 þingmönnum, verði niðurstaða næstu kosninga í samræmi við könnun Gallups.
Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins fengju hver um sig 5 þingmenn. Samkvæmt þessu hlyti formaður Samfylkingarinnar að mynda næstu ríkisstjórn. Unnt væri að mynda stjórn í samræmi við Reykjavíkurmódelið, þ.e. með sömu flokkum og mynda nú meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur og hafa unnið mjög vel saman. Samfylking, Framsókn, Viðreisn og Píratar fengju samtals 36 þingmenn miðað við þessa könnun.
Meðal þess sem virðist blasa við:
- Kjósendur treysta ekki núverandi ríkisstjórn og krefjast stjórnarskipta.
- Allar mælingar í öllum skoðanakönnunum í meira en heilt ár hafa metið ríkisstjórnina kolfallna. Nú hafa tapast 17 þingmenn úr stjórnarliðinu.
- Fylgi Samfylkingarinnar eykst jafnt og þétt og hefur nú rofið 30 prósenta múrinn. Ákall um að Kristrún Frostadóttir leiði næstu ríkisstjórn.
- Fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur aldrei mælst minna í könnunum en nú. Ljóst er að Miðflokkurinn hrifsar til sín kjarna hægri manna í flokknum.
- Miðflokkurinn mælist nú stærri en Framsókn. Það eru mikil tíðindi en er samt í anda þess sem gerist víða þar sem popúlistaflokkar til hægri vinna á.
- Kjósendur skynja mikinn óróa innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson hefur ekki náð sér á strik í nýju embætti og miklar vangaveltur eru um eftirmann hans.
- Viðreisn, Píratar og Flokkur fólksins eru þeir stjórnarandstöðuflokkar sem virðast ekki ná til sín lausafylgi. Það er mikið umhugsunarefni fyrir þá.
- Vinstri grænir eru við það að þurrkast út af þingi ef niðurstaða kosninga verður í líkingu við könnun Gallups. Það yrðu mikil tíðindi ef flokkur forsætisráðherra félli út.
- Kjósendur sjá í gegnum ástandið í ríkisstjórninni þar sem ljóst er að samstaðan er einungis um að hanga á völdum enn um sinn – í þegar tapaðri stöðu.
Þrátt fyrir allt þetta ættum við ekki að gleyma því að skoðanakannanir eru ekki sama og kosningar. Sitthvað á enn eftir að gerast á næstunni.
- Ólafur Arnarson