Kolfallin ríkisstjórn samkvæmt öllum könnunum

Samfylkingin er orðin stærsti stjórnmálaflokkur landsins ef marka má nýja skoðanakönnun Maskínu sem mælir flokkinn nú stærri en Sjálfstæðisflokkinn sem mælist nú með einungis 19.1% atkvæða og 13 þingmenn. Í alþingiskosningunum fyrir einu ári fékk Sjálfstæðisflokkurinn 25.8% atkvæða og 16 þingmenn. Það var næstlakasta útkoma flokksins frá upphafi. Og enn hefur sigið á ógæfuhlið. Þrír þingmenn hafa tapast samkvæmt þessari könnun og fjórðungur kjósenda á einu ári. Samkvæmt þessu féllu þingmennirnir Birgir Ármannsson, Óli Björn Kárason og Vilhjálmur Árnason. Samkvæmt könnun Maskínu er Samfylkingin komin með um 20% fylgi og 14 þingmenn og hefur tvöfaldað þingmannafjölda sinn frá kosningunum fyrir einu ári.

 

Ríkisstjórnin væri kolfallin samkvæmt þessari skoðanakönnun rétt eins og er raunin í öðrum könnunum sem nú hafa verið birtar, Gallup og könnun Fréttablaðsins. Í skoðanakönnun Gallups sem tekin er yfir lengra tímabil mælast Vinstri græn með 10.5% í stað 16.9% í kosningunum fyrir ári. Það er í samræmi við allar skoðanakannanir síðustu mánaða. Maskína mælir VG með 15% sem skýrist væntanlega af því að formaður flokksins hefur fengið mikla fjölmiðlaathygli síðustu daga vegna 100 ára afmælis fullveldisins. Áhrifin af þeim hátíðarhöldum munu ekki endast í marga daga.

 

Miðflokkurinn og Flokkur fólksins bíða afhroð í kjölfar hneykslismála. Hvorugur flokkurinn kæmi manni á þing. Það þarf ekki að koma á óvart í ljósi þess sem gengið hefur á síðustu daga en könnun Maskínu er tekin eftir að uppvíst varð um hneykslið. Framsóknarflokkurinn virðist ekki ætla að græða á óförum fjandmanna sinna í Miðflokknum. Framsókn mælist einungis með 8.8% fylgi samkvæmt könnun Maskínu og fengi 7 þingmenn í stað 8 sem flokkurinn náði í kosningunum fyrir ári en þá hlaut hann 10.7% kjörfylgi. 

 

Kjósendur fylkja sér nú um stjórnarandstöðuflokkana Samfylkingu, Viðreisn og Pírata sem fengju nú 33 menn kjörna á Alþingi og gætu myndað ríkisstjórn ef kosið yrði nú og úrslitin yrðu í samræmi við niðurstöðu könnunar Maskínu. Viðreisn fengi 13.4% fylgi og 9 þingmenn í stað 4 í kosningunum fyrir ári. Píratar fengju 15% og 10 þingmenn í stað 6 þingmanna fyrir einu ári.

 

Svo á eftir að sjá hverjar verða afleiðingarnar af plotti stjórnmálamanna vegna sendiherrastarfa en þar hafa Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir valið að segja ósatt. Það má öllum vera ljóst sem hafa hlustað á upptökurnar og yfirlýsingar Gunnars Braga en Bjarni hefur viðurkennt af hafa átt fundi með Miðflokksmönnum vegna hrossakaupa á þessu sviði. Katrín Jakobsdóttir hefur stöðu vitorðsmanns í plottinu.

 

Rtá.