Á dögunum samþykkti bæjarráð Kópavogs einróma tillögu Pírata, Samfylkingar og BF Viðreisnar um að Kópavogsbær kolefnisjafni ferðir starfsfólks á vinnutíma, jafnt innanlands sem utan. Umhverfissviði hefur verið falið að vinna tillögur að nánari útfærslu framkvæmdarinnar, sem mun fela í sér plöntun trjáa. Í rauninni er tvöfaldur ávinningur af verkefninu, því Ísland er vistfræðilega eitt verst farna land Evrópu vegna ósjálfbærrar landnýtingar.
Á landsvæði sem tilheyrir Kópavogi er til dæmis mikið af illa grónum svæðum sem losa mikinn koltvísýring. Landgræðslan í sjálfu sér dregur því þar með úr losun auk þess sem trén binda koltvísýring í andrúmsloftinu þegar þau vaxa og dafna. Það er því afar ánægjulegt að það hafi verið samhljómur fulltrúa allra flokka um að ráðast í þessar aðgerðir sem eru mikilvægt skref í átt að markmiðum Parísarsamkomulagsins og áætlun um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.