Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, klúðraði sögulegu tækifæri til myndunar vinstri-og miðjustjórnar í síðustu viku.
Það er að koma sífellt betur í ljós að hún réði ekki við verkefnið og hafði enga stjórn á því. Katrín festist í smáatriðum og reyndist ekki hafa yfirsýn yfir verkefnið. Því fór sem fór.
Mikilvægt var að formaður VG fengi að reyna stjórnarmyndun - þó ekki væri til annars en að staðfesta grun margra um að Katrín væri ekki mikill stjórnandi eða séður samningamaður. Enda kom á daginn að hún réði engan veginn við verkefnið og neyddist til að skila stjórnarmyndunarumboði sínu eftir stuttan tíma.
Katrín Jakobsdóttir hefur verið vinsælasti stjórnmálamaður landsins í langan tíma enda er hún geðþekk manneskja. Ýmsir hafa þó talið að hún hefði ekki til að bera næga forystuhæfileika til að leiða ríkisstjórn. Náttfara fannst hún hafi verið aðgerðarlaus sem menntamálaráðherra í vinstri stjórninni frá 2009 til 2013. Verkleysi hennar í þeirri ríkisstjórn hefur verið vel varðveitt leyndarmál til þessa en hefur nú fengið meiri athygli.
Katrín fékk gullið tækifæri til að mynda ríkisstjórn og stimpla sig inn sem alvöruleiðtogi. Hún kunni ekki að nýta dauðafærið.
Katrín Jakobsdóttir verður því áfram vinsæl og geðþekk. En ekkert umfram það.