Dagfari skrifar
Síðustu vikurnar og dagarnir fyrir kosningar hafa tíðum reynst stjórnmálaflokkum og frambjóðendum þeirra skeinuhætt. Þeim hættir til að misstíga sig, jafnvel svo að talað er um að þeir skjóti sig í fótinn. Þetta á við alla flokka, en þó í mismiklum mæli (glænýjasta dæmið er auðvitað stjórnarmyndunar útspil Pírata sem VG, S og BF féllu fyrir).
Í þessu sambandi má rifja upp eitt afdrifaríkasta og dýrasta fótarskot (eða kannski réttara: fótaskot) Sjálfstæðisflokksins fyrir tæpum 40 árum þegar snillingar í Valhöll fundu upp kjörorðið \"Leiftursókn gegn verðbólgu.\" Forsíða Moggans var lögð undir þetta (9. nóvember 1979), en varla var prentsvertan þornuð þegar andstæðingarnir höfðu snúið þessu upp í \"Leiftursókn gegn lífskjörum!\" og sú útgáfa tolldi betur í umræðunni og gæfan snerist gegn Sjálfstæðisflokknum. Mánuði áður hafði skoðanakönnun sem Vísir birti gefið til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn nyti stuðnings 58,5% kjósenda.Hálfum mánuði eftir að \"Leiftursóknin\" var birt hafði fylgið fallið í 44%. Skömmu síðar í 42%. Í kosningunum fékk Sjálfstæðisflokkurinn 35,4% atkvæða sem flokksmönnum þótti rýrt eftir fyrri væntingar, en væntanlega yrði veisla í a.m.k. viku í Valhöll ef slíkar tölur sæjust í komandi kosningum.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið einkar laginn að klúðra góðri stöðu niður í tapaða eins og leiftursóknin er gott dæmi um. En, stundum virðist gæfan sjá að sér og gefa flokknum óvæntan byr í seglin þrátt fyrir margfalt klúður, eins og nú virðist vera að gerast vegna klúðurs annarra, aðallega Pírata. Kannanir sýna vaxandi fylgi, jafnvel upp í 25%, sem hefði fyrir 40 árum þótt slíkt afhroð að menn gátu ekki hugsað niður í svo lágar tölur. Aandstæðingar eiga til að rifja upp ýmislegt af afrekaskránni og hafa gert nú í haust, en - aldrei þessu vant virðist fólk ekki láta það fæla sig frá stuðningi við flokkinn. Skoðum þessi \"afrek.\"
Lekamálið. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra endaði með að segja af sér eftir eindæma klúður þegar viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitanda var lekið úr ráðuneytinu. Hún varð sjálf margsaga í málinu og aðstoðarmaður hlaut dóm. Hanna Birna hrökklaðist úr embætti.
Fjármálaklúður Illuga Gunnarssonar. Upp komst að Illugi hafði þegið margvíslega fyrirgreiðslu, \"lán\" frá fyrirtæki vinar og endurgoldið greiðann með þátttöku í kynningum og fundum með fyrirtækinu í Kína. Illugi er enn í embætti, en verulega laskaður og gefur ekki kost á sér til áframhaldandi þingmennsku.
Náttúrupassinn. Ekki er alveg ljóst hvort þessi \"snilldar\" hugmynd er Ragnheiðar Elínar iðnaðar- og ferðamálaráðherra eða einhvers annars, en víst er að hún kynnti hana eins og sitt eigið hugarfóstur. Svo virtist sem hún ein styddi þessa vonlausu hugmynd sem hlaut engar undirtektir, en ráðherrann eyddi mestum tíma sínum og kröftum í um liðlega tveggja ára skeið. Komst fátt annað að og er hennar nú minnst fyrir þetta fyrirbæri sem hún þó virtist ekki skilja sjálf og skyggir það á allt annað, hafi eitthvað annað verið, enda fékk ráðherrann á sig stimpilijnn \"verklausi\" ráðherrann. Hún féll í prófkjörinu á liðnu hausti og hverfur af þingi um helgina.
Tveir ráðherrar flokksins í skattaparadísarbraski. Formaðurinn Bjarni Benediktsson og innanríkisráðherrann Ólöf Norðdal reyndust eiga aflandsfélög í skattaparadísinni Tortola. Þetta kom í ljós þegar Panamaskjölin voru upplýst. Var þá líka rifjaður upp ótrúlega skrautlegur ferill formannsins í meira en lítið vafasömum fjármálaævintýrum hér heima fyrir hrun og meðan á því stóð þar sem hann var með beinum hætti viðriðinn tapaðar kröfur sem námu vel á annað hundrað milljörðum króna. Svona eins og til að kóróna afrekin gerðist það að stofnun sem heyrir beint undir fjármálaráðherrann, Landsbankinn, seldi í skjóli myrkurs stóran hlut í kortafyrirtækinu Borgun, til náfrænda ráðherrans og það á verði sem var aðeins brot af raunvirði!
Kannski Sjálfstæðismenn geti huggað sig við gamla siðvenuju berskjaldaðra stjórnmálamanna að benda á annað verra. Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð, vakti heimsathygli sem enn hvílir á honum þegar upp um hann komst að hann átti milljarða í Tortólafélagi með konu sinni og þau voru jafnframt kröfuhafar í íslensku bankana um leið og hann sat hinum megin borðsins að stýra \"samningum\" við kröfuhafana. Hann sat semsagt beggja vegna borðsins og um leið á svikráðum við þjóð sína!
Trúlega er sú staða skýringin á hvernig til tókst með \"skuldaleiðréttinguna.\" Fyrir kosningarnar 2013 lofaði Sigmundur Davíð að ná 300 milljörðum króna af kröfuhöfunum í bankana, hrægömmunum eins og hann sjálfur kallaði þá, og nota peningana til að lækka skuldir almennings. Hverjar urðu svo efndirnar? Jú, 70-80 milljarðar voru teknir af skattgreiðendum, þ.e. öllum almenningi, og notaðir til að greiða niður skuldir sumra, þar á meðal efnamanna. Ekkert frá \"hrægömmunum\" enda forsætisráðherrann einn úr þeirra hópi. Hann hrökklaðist úr embætti vegna tortólamálsins, óvíst um framtíð hans annað en að hann heldur stöðugt áfram að reyna að endurskrifa söguna sjálfum sér í hag.
Svo geta sjálfstæðismenn líka ornað sér við tilhugsunina um listann sem þeir bjuggu til sjálfir (Skrímsladeildin í Valhöll) um afrek Vinstri grænna á fyrra kjörtímabili í vinstri stjórn Jóhönnu og Steingríms þar sem núverandi formaður VG Katrín Jakobsdóttir sat líka þétt við hlið Steingríms. Við skulum hugga Sjallana með því að leyfa þessari afrekaskrá að fylgja með:
Svo er að sjá hvort marsipankökugerð Bjarna, ofurmennasjálfslýsingar Sigmundar og smástelpulegt sakleysisbros Katrínar duga þessum stjórnmálaforingjum til að þjóðin gleymi \"afrekum\" þeirra og kjósi þau samt?