Klofningsframboð sigmundar tekur fylgi frá öllum

Nýr stjórnmálaflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar veldur enn aukinni óvissu 33 dögum fyrir kosningar.
 
Fái Sigmundur öflugt og þekkt fólk með sér á lista og takist að bjóða fram í öllum kjördæmum með svo skömmum fyrirvara,
Þá má gera ráð fyrir því að framboðið taki eitthvert fylgi frá öllum flokkum.
 
Framsóknarflokkurinn mun trúlega missa talsvert fylgi þó ekki sé af miklu að taka hjá flokki sem er kominn niður í 10% fylgi.
Þriðjungur eða helmingur þess fylgis gæti færst yfir á nýja framboðið. Þá hljóta hinir tveir framsóknarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og VG, að missa eitthvað fylgi yfir til Sigmundar enda er stefna þeirra allra hin sama í landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, Evrópumálum og fleiri málum sem ágreiningur er við frjálslyndu flokkana um.
 
Þá verður að gera ráð fyrir því að nýja framboðið taki drjúgt fylgi frá Flokki fólksins sem er popúlistaflokkur en Sigmundur Davíð hefur á stjórnmálaferli sínum verið þekktur fyrir grímulausan poppúlisma. Nýr flokkur tekur auðvitað eitthvað af lausafylgi og skaðar þannig öll önnur framboð.
 
Reynslan sýnir að klofningsframboð sem koma fram rétt fyrir kosningar hafa oft mælst mjög sterk í skoðanakönnunum til að byrja með en fallið svo hratt af stalli.
Þannig gæti einnig orðið núna.
 
Nái framboð Sigmundar 10% fylgi í kosningunum þá gæti komið til þess að Framsóknarflokkurinn næði ekki 5% lágmarkinu í kjörfylgi til að fá mann kjörinn á þing og félli þar með út af Alþingi.
 
Það yrði saga til næsta bæjar og vægast sagt kuldaleg kveðja til Framsóknarflokksins á aldarafmælinu.
 
 
RTÁ