Klofin framsókn mun ekki ná sér á strik

Framsókn mun ekki ná að nýta sér þá upplausn sem fall ríkisstjórnarinnar skapar. Við eðlilegar aðstæður í flokknum hefði Framsókn núna átt að vera í kjörstöðu til að sópa til sín fylgi frá óánægðum Sjálfstæðismönnum.
 
En það mun ekki gerast vegna þess að Framsókn er klofinn flokkur. Jafnvel þríklofinn flokkur.
 
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er enn í hefndarhug eftir að honum var hent út úr embætti forsætisráðherra í apríl í fyrra og í framhaldinu felldi Sigurður Ingi hann í formannskjöri í flokknum. Þetta getur Sigmundur ekki fyrirgefið eða sætt sig við.
 
Tilraun Sigmundar til að hóta og ögra Framsóknarmönnum fólst í því að stofna eins konar málfundarfélag sem mætti breyta í stjórnmálaflokk ef þurfa þætti. Stofnfundur vakti nokkra athygli en síðan hefur hvergi verið minnst á fyrirbærið.
 
Fregnir herma að Sigmundur Davíð hafi dvalið langdvölum í London í sumar við ritstörf. Ætlun hans mun hafa verið að leggja drög að bók um meint pólitísk afrek Sigmundar til þessa. Bókin átti í senn að verða varnarræða hans og grundvallarrit fyrir nýjan flokk. Skrifaði Karl Marx ekki einmitt Kommúnistaávarpið í London?
 
Víst er að enginn friður verður í Framsókn meðan Sigmundur Davíð er þar innanborðs. Og hann segist nú ætla í framboð fyrir Framsóknarflokkinn.
 
Þriðji hópurinn í Framsóknarflokknum vill að bæði Sigurður Ingi og Sigmundur víki fyrir Lilju Alfreðsdóttur sem hefur ótakmarkaðan metnað til að verða formaður Framsóknarflokksins sem fyrst.
 
Þrátt fyrir allt á Sigmundur Davíð allnokkurn hóp stuðningsmanna innan Framsóknar. Sá hópur er til í að fórna öllu til að endurreisa Sigmund. Flestir flokksmenn fylkja sér um Sigurð Inga og svo eru þeir sem vilja fá Lilju í formannsstólinn.
 
Kjósendur vita að Framsóknarflokkurinn er klofinn niður í rót og alls ekki stjórntækur.
 
Þess vegna mun hagur Framsóknar ekki vænkast í komandi kosningum og flokkurinn mun áfram sitja fastur í tíu prósenta fylgi.
 
Rtá.