Kjósendur krefjast breytinga

Markverða þróun má greina í fylgi stjórnmálaflokka eftir því sem nær dregur kosningum. Nær allt kjörtímabilið hefur ríkisstjórnin mælst með meirihlutastuðning og eftir að Covid faraldurinn skall á hefur fylgi ríkisstjórnarflokkanna nær undatekningalaust mælst nægilegt til að stjórnin haldi velli.

Samkvæmt skoðanakönnunum nú, þegar tíu dagar eru til kosninga, er ríkisstjórnin hins vegar fallin. Ekki nóg með það, heldur bendir allt til þess að hún sé kolfallin. Þetta eru nokkur tíðindi þó að ekki sé með nokkru móti hægt að fullyrða neitt um niðurstöður fyrr en talið hefur verið upp úr kjörkössum.

Lengi vel var staða Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna sterk en Framsókn átti undir högg að sækja. Nú hefur þetta breyst og breyst hratt. Framsókn hefur styrkt stöðu sína á meðan fjarar undan jaðarflokkum stjórnarsamstarfsins. Um leið hafa Viðreisn, Samfylkingin og Píratar styrkt stöðu sína. Hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn, hafa ekki náð vopnum sínum í kosningabaráttunni, þrátt fyrir myndarlegar auglýsingar. Svo gæti farið að hvorugur þeirra nái á þing.

Eitt nýtt framboð virðist ætla að tryggja sér þingsæti. Sósíalistaflokkurinn var á flugi í skoðanakönnunum, kominn með meira en átta prósenta fylgi. Hann hefur hins vegar misst flugið nokkuð að undanförnu og fer fylgi hans dvínandi, rétt eins og annarra jaðarflokka pólitíska litrófsins.

Skoðanakannanir undanfarinna daga gefa skýrt til kynna að kjósendur hafni í auknum mæli pólitískum öfgum bæði til hægri og vinstri. Mikið fylgistap Sjálfstæðisflokksins gefur enn fremur vísbendingu um að kjósendur, sem fram til þessa hafa kosið flokkinn í gegnum þykkt og þunnt, séu búnir að fá sig fullsadda. Fullsadda á flokki sem stendur vörð um sérhagsmuni, flokki sem færir stórútgerðinni milljarða í meðgjöf til að hún geti sölsað undir sig hvern kima íslensks atvinnulífs, flokki sem stendur gegn fullri þátttöku Íslands í samstarfi lýðræðisþjóða í Evrópu, flokki sem hafnar stöðugum gjaldmiðli og lækkun vaxta hér á landi, flokki sem lægur sig hagsmuni atvinnulífs og heimila litlu varða nema um sé að ræða kvótakónga og heimili þeirra.

Áhugavert verður að fylgjast með því til hvaða ráða jaðarflokkarnir til hægri og vinstri grípa til að stemma stigu við fylgistapinu á lokametrum kosningabaráttunnar. Verði niðurstöður á þann veg, sem kannanir benda til, er raunhæft að mynduð verði ríkisstjórn án þátttöku bæði Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Slík ríkisstjórn yrði svar við kalli kjósenda um að varðhundar sérhagsmuna og öfgastefnu séu ekki velkomnir í stjórnarráðinu og hefja verði uppbyggingu með almannahagsmuni að leiðarljósi.

Ólafur Arnarson