Kjósendur höfnuðu framboði sægreifanna

Þjóðin fagnar nýjum forseta í dag. Almennt virðast landsmenn vera glaðir eða alla vega sáttir við val á Guðna Th. Jóhannessyni í embætti forseta. Hann er maður friðar og sátta. Landsmenn hafa beðið eftir þessum breytingum enda var farið að gæta mikillar þreytu gagnvart Ólafi Ragnari Grímssyni. Hann hefur setið of lengi á valdastóli og var komin út yfir öll mörk. Niðurstaðan er léttir. Kynslóðaskipti verða á Bessastöðum. Þangað kemur fjölskyldumaður með eiginkonu og börn. Fulltrúi venjulegs fólks, einn af okkur eins og hann segir sjálfur. Fulltrúi valdhrokans kveður embættið og sá fulltrúi sama hroka sem vildi þangað var rassskelltur með 13,6 prósenta fylgi sem er minna en það sem hans gamli flokkur mælist nú með í skoðanakönnunum.
 
Kynslóð gömlu og freku karlanna er að kveðja endanlega með þessu. Bæði Ólafur Ragnar og Davíð eru af ´68 kynslóðinni sem nú er endanlega hent út úr íslenskri pólitík, eins og Árni Snævar, fyrrverandi fréttamaður, orðar það. Hann telur þá hafa verið helstu fulltrúa þessarar freku og valdasjúku kynslóðar sem hefur verið fyrirferðarmikil í samfélaginu allt of lengi. Eftir sneypuför Davíðs Oddssonar í þessum kosningum er hans tími endanlega liðinn. Enginn mun framar skeyta um málflutning hans. Ef hann heldur áfram enn um sinn að dreifa skít og óþverra yfir mann og annan úr ritstjórnstóli Morgunblaðsins, þá mun það ekki hafa nein áhrif. Hann er nú núll og nix í samfélagsumræðu á Íslandi eftir þetta. Rétt eins og Jón Baldvin Hannibalsson hefur verið í nokkur ár. 
 
Það er mikið umhugsunarefni að sægreifunum sem eiga Morgunblaðið skyldi koma til hugar að tefla Davíð fram í þessum kosningum. Þeir hafa ekki gert það nema til þess eins að vinna sigur, koma fulltrúa sínum á forsetastól. Þessir menn eiga nú þegar svo margt í þjóðfélagi okkar og þá langaði einnig í Bessastaði. Þeim varð ekki að ósk sinni. Þeir geta þó huggað sig við það að þeir eiga bæði Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn þó virði þeirra sé nú mjög fallandi.
 
Kosningabarátta Davíðs var ráðdýr. Miklu var kostað til í auglýsingum sem birtust í sjónvarpi, útvarpi, blöðum, netmiðlum og á veltiskiltum. Ekkert var skilið eftir. Náttfari þurfti að fara inn á já.is og rakst þar á auglýsingu um Davíð þar sem hann var að heilsa páfanum. Áætlað er að kosningabaráttan hafi kostað 50 milljónir króna. Það borga sægreifar en þeir eru vanir að fá mikið fyrir lítið, en það tókst ekki nú. Fyrir þessar 50 milljónir fá þeir ekkert að þessu sinni. Einungis þá viðvörun að fólkið í landinu sé búið að fá nóg af yfirgangi sérhagsmunahópanna sem hafa vaðið uppi í skjóli núverandi ríkisstjórnar. Þessi niðurstaða gæti orðið upphafið að einhverju meira af hálfu kjósenda. Sjáum til.
 
Fyrir utan val á forseta eru stóru tíðindi þessara kosninga útreiðin á Davíð Oddssyni. Hann náði einungis 4. sætinu og hlaut 13,6% gildra atkvæða. Sturla Jónsson kom næstur á eftir honum. Minni munur var á Davíð og Sturlu í 4. og 5. sæti en á Guðna og Höllu í 1. og 2. sæti. Davíð má muna sinn fífil fegurri í stjórnmálum. Þegar hann kvaddi borgarstjóraembættið í Reykjavík árið 1991 þá var hann og flokkur hans með 60% fylgi í borginni. Nú hlaut hann 13% atkvæða í Reykjavík. Það er því ekki mikið eftir af því gamla veldi og þeirri gloríu sem þá ríkti. Þannig fer um dýrð heimsins.
 
Þegar Davíð og kosningastjórn sægreifanna varð ljóst að hann yrði ekki forseti og gæti ekki unnið kosningarnar, settu þeir sér nýtt markmið sem gekk út á að ná viðunandi niðurstöðu sem yrði sæmandi fyrir þennan fyrrverandi sigurvegara. Markmiðið var að ná öðru sæti og fá 25% greiddra atkvæða. Niðurstaðan var langt frá því. 
 
Davíð tókst allvel að dylja vonbrigði sín í kosningasjónvarpi og lék hlutverk sitt býsna vel, enda útlærður úr leiklistarskóla Ævars Kvarans, eins og oft hefur komið fram. Það sama verður ekki sagt um talsmenn kosningaskrifstofu hans sem fram komu í kosningasjónvarpinu. Þeir Eyþór Arnalds og Óli Björn Kárason urðu aðhlátursefni allrar þjóðarinnar þegar þeir kenndu RÚV um hrakfarir Davíðs og töldu það “rannsóknarefni” hvernig RÚV átti að hafa unnið gegn þeirra manni í kosningabaráttunni. Þetta var ekki rökstutt með neinum hætti, enda mátti Óli Björn vart mæla fyrir ekka.
 
Þeir félagar nefndu ekki að framganga Morgunblaðsins í kosningabaráttunni væri neitt “rannsóknarefni”. Allir vita hvernig blaðið var notað Davíð til framdráttar og til að ráðast að Guðna Th. Jóhannessyni með ýsmum ávirðingum og ósannindum. Allt var notað og misnotað á Mogganum; fréttir, greinar, leiðarar, Reykjavíkurbréf og Staksteinar. Meira að segja skopmyndir. En allt kom fyrir ekki. Vægi Morgunblaðsins reyndist ekkert vera í þessari kosningabaráttu. Það er mikill sigur fyrir lýðræðislega umræðu í þjóðfélaginu.
 
Talið er að framboð Davíðs Oddssonar muni skaða Sjálfstæðisflokkinn í næstu kosningum. Hann er svo nátengdur flokknum sem fyrrverandi formaður í 13 ár og svo skuggastjórnandi flokksins hin síðari ár að ekki fari hjá því að kjósendur setji samasemmerki milli hans og flokksins. Þessi sneypuför verður í minnum höfð og mun bitna á flokknum í komandi kosningum. Bjarni Benediktsson hefði getað dregið úr skaðanum ef hann hefði hreinlega lýst því yfir að hann styddi Davíð ekki í forsetakosningunum. En Bjarni lét það ógert.
 
Nýjasta skoðanakönnun Gallup mælir Sjálfstæðisflokkinn með einungis 19,7% fylgi sem gæfi þeim 13 þingmenn. Framsókn er með 9,5% fylgi sem gæfi 7 þingmenn. Samtals eru stjórnarflokkarnir því komnir niður í 20 þingmenn en fengu 38 þingmenn í kosningunum vorið 2013. Ríkisstjórnin er því komin í bullandi vörn og er ekki aflögufær til að taka á sig óþægindi vegna valdabrölts fyrrverandi leiðtoga eins og þetta framboð Davíðs til forsetaembættisins var.
 
Óhætt er að draga ýmsar ályktanir af úrslitunum forsetakosninganna. Eftir 4 mánuði verða Alþingiskosningar og framundan eru spennandi tímar sem gefa von um miklar og jákvæðar breytingar. 
Breytingar til bóta eru byrjaðar og enn frekari breytingar liggja í loftinu.