Flest bendir til þess að Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi í minnihluta fyrir Sjálfstæðisflokkinn, taki við hlutverki trúðsins í borgarstjórn þetta kjörtímabil af Vigdísi Hauksdóttur.
Borgarstjórn kom saman til fyrsta fundar í gær þar sem nýja miðjubandalagið í borginni hóf störf. Kjartan var strax byrjaður að gjamma með svipuðum hætti og Vigdís gerði allt síðasta kjörtímabil, öllum til armæðu. Hann hélt því fram að meirihlutinn hefði fallið á fyrsta prófinu. Ekki beðið lengi með að kveða upp fyrsta sleggjudóminn!
Í nýafstöðnum kosningum uppskar flokkur Vigdísar Hauksdóttur, Miðflokkurinn, sem hann sáði og fékk engan mann kjörinn í borgarstjórn, fylgið reyndist sáralítið. Kjósendur hafna stjórnmálamönnum eins og Vigdísi sem ólmaðist allt kjörtímabilið með ómálefnalegum hætti. Hún kom ekki bara illa fram við aðra borgarfulltrúa, heldur einnig embættismenn og starfsmenn borgarinnar. Mikið var kvartað undan kjánalegri og jafnvel dónalegri framkomu hennar. En Vigdís lét sér ekki segjast.
Margir höfðu spáð því að Kjartan Magnússon tæki við hlutverki trúðsins í minnihluta borgarstjórnar á þessu kjörtímabili. Það mat er byggt á fyrri reynslu af framgöngu hans. Einnig hefur verið nefnt að annar borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins gæti verið liðtækur á þessu sviði. Þar er átt við Friðjón Friðjónsson. En sjáum hvað setur.
- Ólafur Arnarson.