Vigdís Hauksdóttir setti einkar leiðinlegan svip á stjórnmálastarf í borgarstjórn Reykjavíkur á síðasta kjörtímabili. Hún hélt uppi órökstuddri gagnrýni á meirihlutann sem einkenndist af þráhyggju og ófyrirleitni. Kjósendum líkaði ekki við framkomu Vigdísar og hún fann þegar nær dró kosningum að hún ætti engan möguleika á að ná endurkjöri. Hún hvarf því af vettvangi og arfleifð hennar í Miðflokknum í borginni var sú að flokkurinn fékk engan mann kjörinn í borgarstjórnarkosningunum á síðasta vori.
Í minnihlutanum á síðasta kjörtímabili tengdust Vigdís og Sjálfstæðisflokkurinn sterkum böndum. Gekk þó Vigdís fremst allra í ómálefnalegri gagnrýni. Kjósendur endurguldu Sjálfstæðflokknum framkomuna með því að fella tvo af borgarfulltrúum þeirra í kosningunum og fylgi flokksins mældist hið minnsta í sögunni eða 24 prósent. Fyrra met var 26 prósent sem mældeist í kosningum árið 2014.
Við brotthvarf Vigdísar úr borgarstjórn væntu margir þess að stjórnmálastarfið þar yrði faglegra og málefnalegra á yfirstandandi kjörtimabili. En svo virðist ekki ætla að verða þannig. Einn kemur þá annar fer. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið að sér hlutverk Vigdísar og fer fremstur í ómaklegum árásum á núverandi meirihluta. Hann er hin nýja VigdísHauksdóttir borgarstjórnarinnar.
Kjartan átti sæti í borgarstjórn á árum áður. Fyrir kosningarnar árið 2018 var honum ýtt út af lista flokksins þegar uppstillingarnefnd ákvað að yngja framboðið upp með nýju og frambærilegu fólki. Eftir að hann datt út úr borgarstjórn var hann um skeið fulltrúi Sambands sveitarfélaga í Strassborg þar til hann kom heim til Íslands árið 2021 og tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar. Þar hafði Kjartan ekki erindi sem erfiði og náði ekki kjöri á þing. Þá reyndi hann fyrir sér í prófkjöri flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar sl. vor og náði sæti sem tryggði honum setu í borgarstjórn.
Frá því að Kjartan Magnússon tók sæti í borgarstjórn síðast liðið vor, hefur hann haft allt á hornum sér, nöldrað út í eitt og gagnrýnt allt sem meirihlutinn hefur látið frá sér fara. Hann er greinilega tekinn við hlutverki Vigdísar og heldur að það verði honum og flokki hans til framdráttar. Kjósendur í Reykjavík hafa hins vegar sýnt framkoma af þessu tagi er þeim ekki að skapi. Kjartan getur því haldið áfram á sömu braut án þess að það muni skila neinu. Síðasta dæmið er nú vegna snjómoksturs í Reykjavík þar sem hann, ásamt reyndar fleiri flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins, ræðst að borgarstjórnarmeirihlutanum með órökstuddum ásökunum. Miðað við lýsingar þeirra mætti ætla að meirihlutinn sé ábyrgur fyrir snjókomunni og hafi vísvitandi skipulagt ófærð og vandræðagang í borginni.
Kjartan og nöldurkórinn ættu að kynna sér ástandið varðandi snjómokstur í nágrannabyggðum sem eru að fást við nákvæmlega sama vanda og Reykjavík. Þetta á við um Kópavog, Seltjarnarnes, Garðabæ og Hafnarfjörð, en öll þessi sveitarfélög lúta forystu sjálfstæðismanna. Þar er einnig ófærð og hálka af ástæðum sem stjórnmálamenn ráða ekki við. Enginn hefur ráðist að þeim með fúkyrðum. Kjartan mætti einnig velta fyrir sér ófærðinni utan við borgina, en lokað var í tvo sólarhringa til Keflavíkurflugvallar og austur fyrir fjall. Um það þarf að ræða við Vegagerð ríkisins sem heyrir undir ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna en ekki borgarstjórn Reykjavíkur.
- Ólafur Arnarson.