Kjaradómur veldur sárum timburmönnum á vinnumarkaði

 Þó búið sé að leggja Kjaradóm niður, bendir allt til þess að afleiðingar af ákvörðunum hans eigi eftir að valda miklum erfiðleikum á vinnumarkaði í komandi kjarasamningum. Nokkrir af núverandi leiðtogum launþega hafa sagt að kröfugerð þeirra muni taka mið af umdeildum ákvörðunum Kjaradóms. Þá er vísað til niðurstöðu Kjaradóms sem leiddi til 44.3% hækkunar á launum ráðherra og þingmanna svo og ákvarðana dómsins um hækkanir á kjörum ríkisforstjóra, dómara og helstu embættismanna ríkisins. Þær hækkanir voru á bilinu 20% til meira en 50% og hafa valdið mikilli ólgu.

 

Þessi afstaða kom m.a. fram í svörum Ragnars Þórs Ingólfssonar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur við spurningum fjölmiðla um síðustu helgi þegar spurt var um afstöðu þeirra til mögulegra launahækkanna ljósmæðra. Þau sögu þá að kjör ljósmæðra skiptu engu í þessu samhengi. Kjarakröfur ASÍ-félaga hefðu verið mótaðar og þær tækju mið af úrskurðum Kjaradóms varðandi kjör æðstu embættismanna ríkisins.

 

Enginn þarf að efast um að þau meina þetta. Óhætt er að búa sig undir blóðbað á vinnumarkaði á komandi vetri. Órólega deildin í launþegahreyfingunni mun byrja á því að taka öll völd í ASÍ og ryðja þaðan út öllum sem búa yfir reynslu og þekkingu á sviði kjaramála. Það mun gerast á þingi ASÍ í lok október. Síðan munu kröfur um ca. 40% almenna launahækkun koma fram.

 

Hvað á þá að taka til bragðs? Það verður örugglega erfitt að ná niðurstöðu. Viðsemjendur í atvinnulífinu geta ekki skrifað undir verulegar launahækkanir nema um klára ávísun á mikla verðbólgu verði að ræða. Það verður trúlega niðurstaðan.

 

Reynt verður að fá ríkisstjórnina til að koma með lausnir en ekki þarf að vænta mikils af henni. Ríkisstjórn sem réði ekki við að ná samningum við minnstu starfsstétt landsins, ljósmæður, mun ekki ráða við allan vinnumarkaðinn. Ljósmæðradeiluna varð að senda í gerðardóm því ríkisstjórnin stóð ráðþrota.

 

Ríkisstjórnin er ekki bara ráðþrota heldur rúin trausti. Henni dettur helst í hug að lækka veiðigjöld á stórútgerðina. Hún sættir sig við að hafa lögbrjót við ríkistjórnarborðið í embætti dómsmálaráðherra. Hún svíkur þá verst settu um bætta stöðu eins og lofað var fyrir kosningar. Hún afgreiðir fjármálaáætlun sem er í skötulíki og hún hefur ekki komið neinu markverðu í verk á fyrstu 8 mánuðunum. Enda er fylgi ríkisstjórnarinnar á hraðri niðurleið samkvæmt skoðanakönnunum.

 

Veikburða ríkisstjórn mun ekki hafa afl til neins þegar kjaradeildur verða komnar í hnút upp úr næstu áramótum.

 

Því er spáð hér að gerðir verði skaðlegir verðbólgusamningar fyrir næstu páska eftir mikil og sár átök. Ríkisstjórnin hrökklast frá um þær mundir og við fáum að kjósa enn á ný!

 

Rtá.