araldur Benediktsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NV kjördæmi hefur að undanförnu haldið úti afar kjánalegum leikþætti um að hann íhugi að bjóða sig fram til varaformanns í flokknum. Allir sem þekkja til innan flokksins vita sem er að engin eftirspurn hefur verið eftir honum til þessa embættis og það hefur aldrei flogið honum í hug að bjóða sig fram. Nú hefur hann lýst því yfir að hann muni ekki bjóða sig fram.
En út á hvað hefur þessi skrípaleikur Haraldar gengið?
Honum hefur verið ætlað að auðvelda Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur ráðherra úr kjördæmi Haraldar að ná kosningu sem varformaður en hún hefur þegar tilkynnt um framboð sitt. Haraldur og Þórdís eru bandamenn úr NV kjördæminu og Haraldur er að reyna að koma í veg fyrir að karlmaður bjóði sig fram gegn henni í embætti varaformanns með því að reyna að láta umræðuna snúast eitthvað um sig í þessu sambandi. Það var ósköp barnalegt ferli og nú er því lokið.
Staðreyndin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn er í miklum vandræðum með varaformannsstöðuna í flokknum eftir að Ólöf Nordal féll frá. Konur innan flokksins krefjast þess að kona sitji í þessu embætti eins og verið hefur frá árinu 2005 þegar Þogerður Katrín Gunnarsdóttir varð fyrsta konan til að gegna embætti varaformanns í flokknum. Ólöf Nordal tók við af henni, þá kom Hanna Birna Kristjánsdóttir og svo Ólöf heitin að nýju þar til hún féll frá. Vandi Sjálfstæðisflokksins er sá að engin öflug kona á borð við þessar þrjár finnst nú í forystu flokksins. Þórdís Kolbrún þykir að sumra mati skársti kosturinn. Hún er alla vega betri en Sigríður Andersen – sem getur þó varla talist mikið hrós! Þórdís er óreyndur stjórnmálamaður og hún hefur engu komið í verk sem ráðherra ferðamála, nýsköpunar og iðnaðar á því rúma ári sem hún hefur dvalið í því ráðuneyti. Megn óánægja er með störf hennar eða öllu heldur framtaksleysi. Þá þótt ekki gusta mikið af henni í kosningabaráttunni í fyrrahaust.
Ýmsir reyndir karlmenn í forystu flokksins hafa velt fyrir sér framboði til varaformanns þrátt fyrir vissan vilja til þess að kona gegni embættinu. Enginn þeirra hefur ennþá sigið fram og tilkynnt framboð en talið er að eftirtaldir miðaldra karlar liggi nú undir feldi og hugsi sitt ráð. Þá er að sjálfsögðu átt við þá Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Jón Gunnarsson fyrrverandi ráðherra og Pál Magnússon.
Guðlaugur Þór gæti unnið hvern sem er í kosningu um varaformannsembætti í flokknum núna.
Rtá.