Kjánaleg fundaárátta nokkurra ráðherra

Sumir ráðherrar gangast nú upp í því að koma sér í stöðug fjölmiðlaviðtöl vegna veiruvandans. Gildir þetta einkum um konurnar í ríkisstjórninni. Þær virðast halda að kjósendur þrái að sjá þær á sífelldum fjölmiðlafundum að lesa upp skilaboð til þjóðarinnar um sitthvað sem auðvelt væri að afgreiða með fréttatilkynningum.

Svo virðist sem einhverjir ímyndarráðgjafar hafi komið því inn hjá þeim að þessi fundarhöld séu ráðherrunum til framdráttar. Full ástæða er til að draga það í efa. Það er hlegið að þessum tilburðum. Ekki vegna þess að fundirnir séu svo skemmtilegir heldur vegna þess hve bjánalegar þessar uppstillingar eru. Ráðherrarnir ættu ef til vill að fá sér betri ráðgjafa!

Einnig er bent á að ríkisstjórnin ætti frekar að einbeita sér að því að ljúka málum sem hún hefur vanrækt og svikið í stað þess að standa fyrir þessum kjánalegu sýningum:

Hvernig væri nú að ljúka samningum við hjúkrunarfræðinga með sómasamlegum hætti og afstýra þar með skaðlegu verkfalli - eða á bara að skella lögum á “framlínufólkið” sjálft?

Hvernig væri að ljúka við að koma í framkvæmd úrræðum sem lofað var í mars, eins og ríkisábyrgðum á lán til fyrirtækja sem enn eru ekki komin til framkvæmda?

Hvernig væri að vanda lagasetningar þannig að unnt væri að skilja fyrirmæli laganna?

Hvernig væri að menntamálaráðherra stæði við loforð sín um að fá lögfest svonefnt fjölmiðlafrumvarp sem hún hefur nú fjallað um og lofað við hátíðleg tækifæri í 20 mánuði, frá hausti 2018, allt árið 2019 og bráðum hálft árið 2020. Bullið í kringum þetta mál er til háborinnar skammar.

Á meðan mál eins og fjölmiðlafrumvarpið velkist óafgreitt í þinginu, þykir Lilju það eiga við að koma sér í viðtöl til að lýsa því yfir að byggja eigi yfir eina deild Háskóla Íslands eftir fjögur ár! Er það virkilega forgangsverkefni í miðri veirukrísu að halda blaðamannafund um hús sem ætlunin er að reisa eftir fjögur ár? Á sama tíma liggur 20 mánaða gamalt loforð ráðherrans óafgreitt í þinginu.

Er hægt að ætlast til þess að kjósendur treysti svona stjórnmálamönnum? Nei, það er ekki hægt að ætlast til þess.

Þjóðin sér í gegnum leikaraskapinn.