Tónlistarmaðurinn Dr. Gunni sagði frá því í sjónvarpsþættinum Neytendavaktinni á Hringbraut í gærkvöld hvernig það kom eiginlega til að hann fór að vera í forsvari fyrir neytendamál af ýmsum toga. Upphafið má rekja til ársins 2007 þegar hann, ásamt vini sínum Grími Atlasyni, fóru á kínverskt veitingahús í Reykjavík. Þangað fóru þeir til að fá sér 900 króna hlaðborð í hádeginu. Þegar allt kom til alls reyndist máltíðin hins vegar mun dýrari, enda gos og annað ekki innifalið. Dr. Gunni bloggaði um upplifun sína og í kjölfarið fór boltinn að rúlla. Hann hóf umfangsmikil skrif um hvernig landsmenn geta hagað betur sínum innkaupum, sparað og sýnt meiri ráðdeild og nýtni í heimilisrekstri.
Þótt Dr. Gunni starfi ekki lengur við skrif um neytendamál, er hann í hugum margra einn af upphafsmönnunum fyrir því að hér á Íslandi varð ákveðin vitundavakning hjá neytendum. Þáttinn með viðtalinu við doktorinn má nálgast í heild sinni á hringbraut.is, svo og klippur úr honum á forsíðu vefjarins.