Kerfin

Ekki er að orðlengja að veröldin er á öðrum endanum vegna þeirrar aðsteðjandi vár sem kóvið er. Daglegt líf milljarða manna er úr skorðum og margir bera kvíðahnút í maga. Finna þarf nýjar aðferðir til að leysa dagleg verkefni og heimili og fyrirtæki eru skyndilega komin með úrlausnarefni í sínar hendur sem riðlar öllu skipulagi. Nýjar áskoranir eru við hvert fótmál og finna þarf nýjar lausnir við stór og smá viðfangsefni.

Efnahagskerfi heimsins verða fyrir ógnarhöggi og ríkisstjórnir og seðlabankar keppast við að hlífa íbúum landanna við búsifjum sem ekki ræðst við nema með stórgerðum aðgerðum stjórnvalda með allskyns innspýtingu og inngripum. Við þessu gat enginn búist.

Þegar þetta allt gengur á furða menn sig á því hvernig ein svo agnarsmá veirulús getur komið þessu öllu í svo mikið uppnám. Hvernig getur það gerst að sérkennilegur matarsmekkur fjölmennrar þjóðar leiði af sér þetta umrót? Getur það staðist að stofnað sé til þessarar áhættu æ ofan í æ? Hvernig var með HABL og svínaflensuna – voru þeir faraldrar ekki líka sprottnir af matarvenjum? Er ekki viðbúið að alþjóðasamfélagið krefjist þess að menn finni sér eitthvað annað að borða og gangi þannig um matvæli að ekki sé hætta á sóttkveikjum? Myndum við ekki fallast á það hér uppi á Íslandi að hætta að leggja okkur hákarl eða súra punga til munns, ef neyslu þeirra fylgdi hætta á að efnahagskerfi yrðu fyrir áfalli? Að ekki sé minnst á að þúsundir manna tapi lífinu.

Það er líka sérkennilegt að þessi flóknu kerfi sem við höfum komið okkur upp séu ekki traustari en svo að svona písl eins og kórónaveiran er, felli þau eins og stráhús í vindi. Þegar upp verður staðið hlýtur að verða dreginn af þessu lærdómur. Heimurinn getur varla búið við að þetta gerist á ný. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hlýtur að leggja til að einhverjar skorður verði settar, þannig að sambærileg staða komi ekki upp á ný. Hún verður ekki reiknuð inn í áhættulíkön. Við slíka áhættu er ekki hægt að búa.

Þrátt fyrir allt fylgir svona uppnámi ýmislegt sem gæti orðið til góðs. Í Fréttablaðinu sagði í vikunni frá skólastjórnanda sem telur að skólastarfi fleygi fram við þessar aðstæður. Byggt á þessari reynslu fari vaxandi skólastarf fram um netið. Það er gott.

Skotið hefur verið á að um þriðjungur starfandi manna sinni verkefnum sínum heima hjá sér og tengist kerfum vinnustaðar síns um netið. Það er sumpart gott. Til eru þeir sem segja að mesta framþróun tækni og þekkingar verði á stríðs- eða átakatímum. Þeir benda til dæmis á að menn hefðu ekki gengið á tunglinu ef ekki hefði verið fyrir spennu og kapphlaup milli andstæðra afla í heiminum. Það má vera að eitthvað sé til í því. Það má vel vera að þegar allt kemur til alls að kóvið stuðli að framþróun á ýmsum sviðum. Og úr því þetta allt varð yfir okkur að ganga er eins gott aðþað verði til einhvers góðs.

En það er of dýru verði keypt.

Höfundur er ritstjóri Fréttablaðsins.