„Í dag kom út svört skýrsla um Ísland frá sérfræðingahópi Evrópuráðsins um mansalsmál. Það kom ekki á óvart að skýrslan væri svört og tillögurnar eru allar í samræmi við þær tillögur sem helstu sérfræðingar í málaflokknum hafa barist fyrir síðustu ár. Nýs dómsmálaráherra bíða þau brýnu verkefni að koma á samræmingarteymi, gera aðgerðaráætlun, breyta lögum er varða mansal, auka yfirsýn og fræðslu um málaflokkinn. Það þarf að lyfta grettistaki í þessum málum, ekki síðar en í gær.“
Þetta ritar Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, í föstudagspistli sínum á heimasíðu ASÍ.
RÚV.is greinir frá því að niðurstaðan í úttekt á vegum Evrópuráðsins á mansalsmálum á Íslandi sé sú að þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi tekið sig á í ýmsum þáttum er snúa að baráttu gegn mansali sé enn margt ógert. Höfundar hvetja stjórnvöld til þess að samræma baráttu gegn mansali, meðal annars með því að koma á fót embætti sem hefur umboð og úrræði til að kalla saman alla þá er málið snertir.
Þá eru stjórnvöld hvött til að setja upp þjóðaráætlun um hvernig væri best að haga þessari baráttu og tryggja þá fjármuni sem til þurfi. Lögð er áhersla á að stjórnvöld beiti sér af krafti til að bera kennsl á þolendur mansals og veiti þeim aðstoð og vernd.
Í samtali við RÚV segir Drífa að stjórnvöldum væri nær að bregðast ekki fyrr við athugasemdum verkalýðshreyfingarinnar. „Það kemur svo sem ekki á óvart að þessi skýrsla er dökk. Hún staðfestir það sem við höfum verið að segja í gegnum tíðina. Það er ljóst af þessari skýrslu að stjórnvöld hefðu betur átt að bregðast við okkar athugasemdum fyrr. Það að það sé að koma enn ein svört skýrslan um ástand mansalsmála á Íslandi á ekki að koma neinum á óvart. Þær koma mjög reglulega núna bæði frá Evrópu og Bandaríkjunum.“