Í allri umræðunni um úrslit kosningana um helgina gleymist að mestu að ræða um niðurlægingu flokks forsætisráðherrans, Vinstri grænna. Katrín Jakobsdóttir leiðir ríkisstjórn og hefur verið vinsælasti stjórnmálamaður landisins hin síðari ár en er greinilega að missa þann titil til Ásmundar Einars Daðasonar og Sigurðar Inga Jóhanssonnar. Ekki virðist það skipta kjósendur neinu máli þótt sá síðarnefndi hafi nýlega viðhaft rasísk ummæli um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.
Niðurlæging Vinstri grænna, og einkum og sér í lagi formanns flokksins, hefur enn sem komið er fallið í skuggann af öðrum niðurstöðum kosninganna. Útkoma VG er með þeim hætti að ekki er hægt að tala um annað en hrun. Vert er að hafa í huga að árið 2006 sagði Halldór Ásgrímsson af sér embætti forsætisráðherra og formennsku í Framsóknarflokknum í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Margt mætti læra af þeirri heiðarlegu afstöðu!
Ef litið er á stöðu Vinstri grænna á sveitarstjórnarstiginu eftir úrslit helgarinnar blasir eftirfarandi við: Í Reykjavík hlaut flokkurinn 4 prósent greiddra atkvæða og einn mann inn með naumindum. Flokkarnir sem eru með Katrínu í ríkisstjórn fengu samtals um 40 prósent fylgi. Hvað veldur?
Í Kópavogi fékk VG engan mann kjörinn og sama var uppi á teningnum í Hafnarfirði. Einn fulltrúi í þremur stærstu sveitarfélögum landsins sem telja um 55 prósent kjósenda í landinu er auðvitað enginn árangur hjá flokki forsætisráðherra. Áfram má telja upp sveitarfélög þar sem VG náði ekki fulltrúa inn í bæjarstjórn: Garðabær, Árborg, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Vestmannaeyjar, Fjarðarbyggð, Reykjanesbær svo eitthvað sé nefnt.
Nú er verið að mynda meirihluta í ýmsum sveitarfélögum á landinu. Ekki verður séð að Vinstri græn séu nokkurs staðar kölluð til samstarfs.
Um leið og þetta gerist eru allir fjölmiðlar og aðrir uppteknir af því að fjalla um sigur Framsóknar um land allt. Ekki kemur það á óvart og er viðeigandi á þessu augnarbliki.
Þá hafa andstæðingar Sjálfstæðisflokksins verið fljótir til að ráðast að formanni flokksins, þó svo niðurstaða kosninga sé blönduð þar á bæ: Meirihlutinn féll i Reykjavík þó að flokkurinn komist ekki til valda. Fylgið er nú einungis 24.5% sem er hið minnsta í sögunni. Flokkurinn tapar fylgi í Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ en er samt stærsti flokkurinn. Þótt flokkurinn tapi á Akureyri er hann samt í meirihlutaviðræðum við sigurvegara kosninganna, Viðreisn og félaga þar. Á ýmsum öðrum stöðum er staðan góð, eins og í Árborg, þó að gömul vígi eins og Hveragerði og Vestmannaeyjar hafi gengið flokknum úr greipum.
Við þessar aðstæður spyr fréttamaður RÚV formann Sjálfstæðisflokksins hvort hann ætli ekki að segja af sér. Vitanlega kvað hann nei við því.
Hvers vegna fékk formaður Vinstri grænna ekki sömu spurningu frá fréttamanninum? Var ekki tilefni til að spyrja formann þess flokks sem mest afhroð geldur hér á höfuðborgarsvæðinu og raunar um allt land, að Miðflokki frátöldum, að því hvort hann íhugi afsögn í ljósi niðurstöðunnar?
- Ólafur Arnarson.