Vinstri græn virðast ætla að koma í veg fyrir að ráðist verði í allt að 18 milljarða króna framkvæmdir í Helguvík á vegum NATO.
Fram hefur komið að þetta standi til boða og gæti skapað atvinnu fyrir allt að 350 manns á framkvæmdatíma.
Það mundi sannarlega muna um slíka búbót þegar atvinnuleysi á Suðurnesjum er í hámarki.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra sýnir nú sitt rétta andlit og ætlar að þvælast fyrir ákvörðun um þessa fjárfestingu.
Íslenskir sósíalistar hafa alltaf verið á móti NATO þrátt fyrir þá staðreynd að Ísland sé hluti af bandalaginu. Þeir eru tilbúnir að taka þátt í ríkisstjórnum án þess að krefjast úrsagnar út hernaðarbandalaginu en gera sitt til að þvælast fyrir mikilvægum ákvörðunum eins og þeirri fjárfestingu sem utanríkisráðherra leggur til að farið verði í á kostnað NATO einmitt núna þegar tíminn til þess hentar hagsmunum Íslendinga mjög vel.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins gagnrýndu Katrín harðlega í umræðum á Alþingi í gær vegna málsins. Hún svaraði út og suður. Af svörum hennar mátti ráða að flokkur hennar muni stöðva þessar mikilvægu og atvinnuskapandi framkvæmdir með útúrsnúningum. Svo virðist sem hver ríkisstjórnarflokkanna hafi neitunarvald í ríkisstjórninni um mikilvæg mál.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn verða nú að standa í lappir. Suðurnesjamenn þurfa á þessum framkvæmdum að halda núna til að vinna gegn gríðarlegu atvinnuleysi. NATO væri ekki að leggja til að fara í þessar framkvæmdir nema af augljósri þörf.
Ef Vinstri grænir ætla að þvælast fyrir má spyrja hvort ekki er kominn tími til að leysa flokkinn frá störfum í núverandi ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn gætu stýrt landinu til næstu kosninga án atbeina Vinstri grænna. Það væri um margt einfaldara og betra.
Þá þyrftu aðrir flokkar að styðja minnihlutastjórn. Því skyldu Viðreisn og Miðflokkurinn ekki gera það? Formenn þeirra flokka gagnrýndu Katrínu Jakobsdóttur harðlega vegna þessa máls í gær. Þeir ættu að sjá augljósa kosti þess að ýta Vinstri grænum til hliðar og styrja minnihlutastjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar fram á næsta ár.
Ekki yrði mikið vandamál að manna þá ráðherrastóla sem Vinstri grænir yfirgæfu. Bjarni Benediktsson gæti tekið við embætti forsætisráðherra. Willum Þórsson frá Framsókn yrði þá fjármálaráðherra í stað Bjarna en hann er nú formaður fjárlaganefndar þingsins.
Eins mætti hugsa sér að Jón Gunnarsson kæmi inn í ríkisstjórnina frá Sjálfstæðisflokki. Hann gæti tekið að sér umhverfisráðuneytið með öðru ráðuneyti af stærri gerðinni. Jón hefur reynslu sem ráðherra. Margir hæfir þingmenn kæmu til greina í embætti forseta Alþingis í stað Steingríms J. Sigfússonar.
Þessar breytingar gætu ekki orðið nema til bóta.