Talsvert uppnám gæti verið framundan í stjórnarflokkunum. Til þess gæti komið að formenn allra þriggja stjórnarflokkanna létu af formennsku í vetur.
Vitað er að Katrín leitar leiða til að losna frá stjórnmálaþrasinu enda er hún orðin dauðþreytt á endalausum vandræðum og málamiðlunum. Hún berst stöðugt við að halda lokinu á meirihlutapottinum til þess að síður sjóði upp úr. Ekki hjálpar að nú eru þingmenn byrjaðir að týnast úr liði Vinstri grænna. Andrés er farinn og því er spáð að Rósa Brynjólfsdóttir færi sig brátt yfir í Samfylkinguna.
Katrín gerir sér vonir um að hreppa stöðu hjá alþjóðastofnun. Þá tæki Guðmundur Ingi Guðbrandsson við en hann er varaformaður Vinstri grænna og ráðherra.
Ekki er víst að Svandís Svavarsdóttir tæki því hljóðalaust.
Lilja Alfreðsdóttir fer ekki dult með það að hún vill taka við formennsku sem fyrst í Framsóknarflokknum. Sigurður Ingi íhugar að láta af formennsku með góðu.
Framtíð Bjarna Benediktssonar hjá Sjálfstæðisflokknum er að verða sagan endalausa. Hjálparkokkar hans segja að hann gefi kost á sér áfram. En aðrar heimildir úr þingflokknum halda því fram að Bjarni sé búinn að fá miklu meira en nóg. Samherjamálið bætist nú ofan á önnur vandræðamál flokksins og síðasta skoðanakönnun mældi fylgi flokksins einungis 18%. Hið minnsta frá því mælingar hófust.
Bjarni berst nú fyrir því að Kristján Þór Júlíusson þurfi ekki að víkja úr ríkisstjórninni. Sú barátta er dæmd til að tapast vegna afleitrar stöðu Samherja og náinna hagsmuna-og vinartengsla hans við eigendur fyrirtækisins.
Þó Bjarni vilji láta ungu konurnar taka við flokknum mun það ekki verða. Guðlaugur Þór Þórðarson mun taka við af Bjarna, Jón Gunnarsson mun leysa Kristján Þór af hólmi og Birgir Ármannsson verður loks ráðherra eftir langa bið.
Svo sjáum við hvort Sjálfstæðisflokknum tekst að verja 18% fylgið.