Fáum dylst að framkoma Sigurðar Inga Jóhannssonar, ráðherra og formanns Framsóknarflokksins, á Búnaðarþingi, er ólíðandi með öllu og ekkert minna en pólitískur skandall. Í fyrstu reyndu framsóknarmenn að eyða tali um atvikið þegar fjölmiðlar komust í málið og aðstoðarmaður ráðherra sagði beinlínis ósatt. Ingunn Sæmundsdóttir laug hreint út og talaði um „algera þvælu“ áður en ráðherrann hafði gengist við afbroti sínu.
Mál Sigurðar Inga minnir sífellt meira á lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem var ráðherra Sjálfstæðisflokksins 2013 og þar til hún þurfti að segja af sér vegna málsins þar sem hún varð uppvís að óviðeigandi framkomu. Aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, sagði ósatt og lak upplýsingum til Morgunblaðsins, þar sem hann starfar nú sem viðskiptablaðamaður.
Hanna Birna baðst afsökunar. Sigurður Ingi hefur nú beðist afsökunar á rasískri framkomu sinni gagnvart Vigdísi Häsler framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.
Þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tjáði sig um málið á Alþingi í gær talaði hún skýrt um að framkoma Sigurðar Inga væri ólíðandi en hann hefði beðist afsökunar og það væri nóg. Katrín telur að þar með sé málinu lokið án þess að það hafi frekari afleiðingar í för með sér fyrir formann Framsóknarflokksins.
Forsætisráðherra velur að túlka framkomu Sigurðar Inga með þeim hætti að hann geti einfaldlega móðgað fólk, komið fram af dónaskap og sýnt af sér rasíska tilburði og karlrembu. En það sé allt í lagi því að hann hafi beðið afsökunar – reyndar ekki fyrr en eftir að fjölmiðlar komust í málið þremur dögum síðar. Hann hafði ekki frumkvæði að því sjálfur.
Eru skilaboð forsætisráðherra þau að menn geti hagað sér svona og það sé allt í lagi ef þeir biðjast afsökunar þegar þjarmað er að þeim?
Inn í samanburð við mál Hönnu Birnu blandast spurning um jafnréttismál. Getur verið að karlráðherra komist upp með meira en kona í ráðherraembætti?
Getur verið af afstaða Katrínar Jakobsdóttur markist fyrst og fremst af því að koma í veg fyrir afsögn Sigurðar Inga af ótta við að með því kynni ríkisstjórn hennar að liðast í sundur?
Gleymum því ekki að þegar Hönnu Birnu var fórnað á sínum tíma var hún varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hafði átt í baráttu við formann flokksins og boðið sig fram gegn honum á landsfundi og tapað. Trúlega fannst formanni flokksins ekkert verra að Hanna Birna hyrfi af sviðinu án þess að hann þyrfti að koma nærri því. Ríkisstjórnarsamstarfið haggaðist ekki við brottför Hönnu Birnu.
Ef Sigurður Ingi þyrfti nú að víkja úr ríkisstjórn, gæti stjórnarsamstarfið riðað til fals. Því mun Katrín Jakobsdóttir veita formanni Framsóknar syndaaflaausn eins og ekkert sé!
- Ólafur Arnarson