Fylgi Vinstri grænna heldur áfram að hrynja af þeim. Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun er fylgið komið niður undir sjö prósent, sama og Sósíalistaflokkur Íslands sem virðist vera að hirða fylgið af VG jafnt og þétt. Úrslit sveitarstjórnarkosninganna í vor reyndust vera áfall fyrir flokkinn sem er nú nær hvergi við völd í sveitarstjórnum.
Þessi útkoma er hreint vantraust á Katrínu Jakobsdóttur, formann flokksins og forsætisráðherra. Það er beinlínis pínlegt að henni sé treyst fyrir embætti forsætisráðherra þegar kjósendur nota hvert tækifæri sem gefst til að lýsa yfir vantrausti á hana. Það er grímulaus dónaskapur við kjósendur að Vinstri græn segi sig ekki úr ríkisstjórninni við þessar aðstæður.
Mikil ólga er innan flokksins vegna faðmlags Katrínar við formenn samstarfsflokkanna á Íslandi og þjónkun hennar við leiðtoga NATO, en hún notar hvert tækifæri til að stilla sér upp til myndatöku með þeim þar sem hún brosir út að eyrum, sjálfur NATO-andstæðingurinn! Íslenskur forsætisráðherra hefur aldrei sótt NATO-fundi eins þétt og Katrín, þó að flestir forverar hennar hafi verið fylgjandi aðild Íslands að samtökunum.
Á nýafstöðnum flokksráðsfundi VG brá svo við að Katrín og líka reyndar varaformaður flokksins, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sendu Sjálfstæðisflokki og Framsókn nokkur föst skot og lýstu yfir stuðningi við mál sem samstarfsflokkarnir hafa ekki viljað hreyfa. Ljóst að örvænting hefur gripið um sig í forystu VG og nú á að reyna að kasta fram ódýrum yfirlýsingum til að freista þess að róa bakland flokksins – eða öllu heldur það litla sem eftir er af því.
Guðmundur Ingi gekk reyndar svo langt að tala um að hann kysi frekar að VG tæki þátt í ríkisstjórn sem væri lengra til vinstri en sú sem situr og grænni. Með öðrum orðum: Hann gaf skít í samstarfsflokkana. Benda mætti á að flokkur hans hefur algerlega gefist upp á grænu málunum og misst forystu í þeim til annarra flokka, einkum stjórnarandstöðuflokka og Sjálfstæðisflokksins sem fer af myndarskap með umhverfis-og loftslagsmál í ríkisstjórninni. Þess vegna er yfirlýsing Guðmundar Inga innantóm. Katrín varpaði hins vegar fram þeirri skoðun flokksins að hækka ætti veiðileyfagjöld á útgerð landsmanna. Sko til! Er hún loksins að átta sig á því að nú er lagt á smánarafgjald vegna gjafakvóta á Íslandi. Hún er búin að leiða ríkisstjórn í fimm ár. Hvers vegna hefur hún ekki gert annað en lækka veiðileyfagjöldin allan þann tíma sem hún hefur verið við völd? Yfirlýsing hennar er afar ótrúverðug.
Þá varpaði formaður Vinstri grænna því fram að hækka þyrfti fjármagnstekjuskatt á þá ríku. Dæmigert er að slá einhverju svona fram í kjölfar þess að fjölmiðlar hafa birt upplýsingar um háar fjármagnstekjur, einkum í sjávarútvegi, sem fólk hefur svo býsnast yfir. Þetta er árvisst og hefur engin áhrif. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn vilja ekki hækka þessa skatta. Enginn veit það betur en Katrín Jakobsdóttir og því er þessi upphrópun hennar loddaraskapur og ekkert annað.
Svo hreytti hún ónotum í fáeina forstjóra, sem eru með eitthvað hærri skattskyld laun en hún sjálf, og krafðist þess að þeir sýndu góð fordæmi en töluðu ekki niður launakröfur launþegahreyfingarinnar. Katrín heldur að fólk taki ekki eftir því að hún er sjálf með um þrjár milljónir á mánuði í launatekjur sem hún þarf að greiða skatta af. Laun ráðherra, alþingismanna, dómara og æðstu embættismanna ríkisins hækka sjálfkrafa á hverju ári. Það gerðist fyrr í sumar án þess að hún segði þá neitt um launahækkanir æðstu manna. Hún hefði þá getað afsalað sér hækkuninni til að sýna gott fordæmi í aðdraganda kosninga. Það gerði hún hins vegar ekki en baunar frekar á fáeina forstjóra og ætlast til að það hljómi vel í eyrum almennings.
Kjósendur sjá væntanlega í gegnum tvískynnung ráðherra Vinstri grænna sem hrópa nú á hjálp þegar fylgið hrynur af þeim. Neyðarkall þeirra með innstæðulausum tillögum mun ekki virka enda er neyðarkallið bara neyðarlegt.
- Ólafur Arnarson