Græna hliðin snýr sannarlega ekki upp hjá Vinstri grænum þessa dagana. Formaður flokksins sniðgengur stefnu flokksins í náttúruverndarmálum og er nú tilbúin að blessa vanhugsað stórhvaladráp Kristjáns Loftssonar, Benedikts Sveinssonar, Einars Sveinssonar og félaga í Hval hf. Náttúruverndarstefna Vinstri grænna skal nú víkja fyrir þeirri einu verndarstefnu flokksins sem skiptir máli um þessar mundir sem er að vernda ráðherrastóla og valdastöðu flokksins enn um sinn. Sú sæla getur væntanlega ekki varað lengi með áframhaldandi framgöngu ríkisstjórnarinnar á mörgum sviðum. Afstaða forsætisráðherra til stórhvaladrápsins er einungis enn eitt klúðrið.
Það var sorglegt að fygjast með svörum Katrínar Jakobsdóttur í þinginu í gær þegar spurt var um afstöðu hennar og Vinstri grænna til fyrirhugaðs dráps á 209 stórhvelum nú í sumar. Vinstri grænir hafa markaða stefnu um friðun hvala en Katrín virðist vera tilbúin til að víkja henni til hliðar eins og ekkert sé.
Náttúruverndarsamtökin Jarðarvinir hafa birt auglýsingar sem vekja athygli á því hve vanhugsað það er að heimila þessar veiðar. Ímynd Íslands sem siðaðrar þjóðar er í hættu. Hvalaafurðir seljast ekki. Víða um heim er bannað að eiga viðskipti með þessar afurðir og einnig er bannað að flytja þær milli landa. Samt vill Hvalur hf. leggja út í þennan rekstur, jafnvel taprekstur, enn á ný. Svo virðist sem þetta fjárhagslega sterka fyrirtæki hafi unun af því að ögra heilbrigðri skynsemi hugsandi fólks. Kristjáni Loftssyni virðist vera alveg sama um það þó ferðaþjónusta Íslands skaðist af þessu brölti eða að markaðir fyrir fiskafurðir og iðnaðarvörur skemmist.
Fram kemur í málflutningi Jarðarvina að tekjur 15 íslenskra fyrirtækja af hvalaskoðun nemi orðið 5 milljörðum króna á ári. Um 500.000 ferðamenn fara í hvalaskoðunarferðir árlega og NJÓTA þess að virða þessi tígurlega dýr fyrir sér. En Kristján Loftsson og meðeigendur hans í Hval hf. vilja ekki njóta heldur SKJÓTA dýrin, draga þau síðan á land í hvalstöðinni í Hvalfirði þar sem útlendingar og aðrir gestir geta horft á ógeðfellt blóðbað sem myndað er bak og fyrir og síðan sent út um allan heim í gegnum samfélagsmiðla.
Svör forsætisráðherra á Alþingi í gær valda vonbrigðum. En þurfa þau nokkuð að koma á óvart? Dettur einhverjum í hug að Bjarni Benediktsson fallist á að ríkisstjórnin setji hömlur á Hval hf. en fjölskylda hans er einn stærsti hluthafinn í fyrirtækinu? Talið er að Kristján Loftsson og Birna systir hans eigi um 40% hlutafjár í Hval hf. en fjölskylda Bjarna mun eiga nærri fjórðung hlutabréfa í þessu umdeilda fyrirtæki.
Katrín Jakobsdóttir er hrædd við samstarfsflokka sína sem eru flokkar sérhagsmuna hinna ríku. Hún þarf að beygja sig fyrir þeim. Hver trúir því á hana að hún vilji ekki frekar NJÓTA en SKJÓTA þessi tignarlegu dýr. En hún lætur beygja sig og er minni manneskja fyrir vikið.
Rtá.