Fylgi Vinstri grænna heldur áfram að hrynja samkvæmt öllum skoðanakönnunum enda ræður formaður flokksins ekki við verkefni sitt. Hún er greinilega nokkrum númerum of lítil til að stýra stjórnmálaflokki hvað þá ríkisstjórn. Þetta hlýtur að teljast fullreynt.
MMR birtir nú nýja skoðanakönnun þar sem fylgi ríkisstjórnar Katrínar er komið niður í 40% og hefur fallið úr 45% á einum mánuði. Stjórnin er í frjálsu falli að mati kjósenda.
Vinstri græn missa mikið fylgi á einum mánuði og hafa nú einungis 11.3% kjósenda á bak við sig í stað 17% í síðustu kosningum. Þriðji hver kjósandi flokksins frá kosningunum hefur yfirgefið Vinstri græna. Flokkurinn náði þá 11 mönnum inn á þing en fengi nú einungis 7 menn kjörna. Ekki þarf að taka fram að ríkisstjórn Katrínar er kolfallin með einungis 27 þingmenn á bak við sig samkvæmt þessari nýjustu könnun.
Þessar niðurstöður þurfa ekki að koma á óvart. Katrín Jakobsdóttir nær ekki að sýna neina forystu. Hún nýtur ekki virðingar. Hún hefur til dæmis enga pólitíska þyngd til að leiða Alþingi út úr þeirri sjálfheldu sem Miðflokkurinn hefur komið þinginu í með takmarkalausum fíflaskap sem ætti ekki að líðast á Alþingi og myndi ekki líðast ef hér væri forysta sem væri tekin alvarlega.
Því er haldið fram hér að enginn forsætisráðherra í Íslandssögunni hefði látið annað eins stjórnleysi og önnur eins skrílslæti viðgangast í þinginu og Katrín hefur sætt sig við að undanförnu. Það skýrist ef til vill af því að hún hefur ekki burði til að leysa erfið mál.
Kjósendur sjá þetta og senda skilaboð í skoðanakönnunum eins og dæmin sýna.
Katrín og ríkisstjórn hennar eru rúin trausti og eiga að víkja hið fyrsta.