Katrín jakobsdóttir ræður alls ekki við embætti forsætisráðherra

Það er að koma æ betur í ljós að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, ræður engan vegin við embætti sitt. Hún hefur ekki burði til að  leiða ríkisstjórn. Þá er vaxandi ólga innan VG vegna allra þeirra kosningasvika sem eru að koma betur og betur í ljós. Ríkisstjórn Katrínar víkur aftur og aftur frá grundvallarstefnumálum VG og situr uppi með svikin kosningaloforð, einkum gagnvart þeim sem minna mega sín og ætla verður að hafi gjarnan fylgt sósílaistaflokki að málum.

Katrín lét það ganga yfir ríkisstjórn sína að styðja hernaðaraðgerðir Nato-ríkja í Sýrlandi þó það hafi verið ein af mikilvægustu áherslum VG gegnum tíðina að vera á móti hernaðarbrölti Nató og annara hernaðarvelda. Hún svaraði út og suður þegar fjölmiðlar leituðu eftir áliti hennar og ríkisstjórnarinnar vegna árásanna. Ísland er í Nato og stóð að stuðningi við árásir Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands. Sjálfstæðismenn vildu auðvitað tala skýrar um stuðning og VG er á móti þannig að báðir flokkar sviku grundvallarstefnur sínar með því að Katrín og Guðlaugur Þór svöruðu út og suður um þetta stóra mál og komu mjög veik út úr umræðunni.

Þá liggur fyrir að mikil ólga er í grasrót VG vegna þess að Katrín sættir sig – alla vega ennþá -  við að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra fái  að sitja í ríkisstjórn eftir að hafa verið dæmd af Hæstarétti Íslands fyrir embættisafglöp. Það gegnur þvert á grundvallarstefnu VG. Tveir þingmenn flokksins treystu sér ekki til að verja Sigríði vantrausti þegar tillaga um það kom fram í þinginu og kusu með vantrausti. Aðrir tveir þingmenn lýstu því yfir að þeir vildu samþykkja vantraustið en gætu það ekki því þá félli ríkisstjórnin! Því kusu þær Lilja Rafney og Bjarkey Ólsen á móti vantrausti og þar með á móti sannfæringu sinni. Þar viðurkenndu þær hið augljósa að þessi ríkisstjórn er einungis mynduð um ráðherrastóla en alls ekki stefnur og sannfæringar flokka og þingmanna.

Til viðbótar við þetta virðist vera að fjármálaáætlun ríkisins til fimm ára sé í meginatriðum misheppnuð. Hún er illa unnin og gegnur ekki upp. Áætlunin hefur ekki bara verið gagnrýnd af stjórnarandstöðunni, heldur einnig af fagaðilum og sérfræðingum sem gefa henni falleinkunn. Í þessari áætlun er mörkuð stefna sem kemur engan vegin til móts við þau loforð sem VG og fleiri gáfu þeim verr settu í þjóðfélaginu fyrir kosningar. Katrín Jakobsdóttir ætlar að svíkja gefin loforð án þess að blikna.

Um þetta segir Inga Sæland formaður Flokks fólksins og þingmaður í nýlegri blaðagrein: “Það er mér þungbært að horfast í augu við þá staðreynd að það hefur akkúrat ekkert verið gert á þingvetrinum til að koma til móts við þá sem höllustum fæti standa.” Einnig: “Í boði ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur eru enn tæplega 10% íslenskra barna sem líða mismikinn skort. Í hennar boði er enn áframhaldandi skattlagning fátæktar. Í hennar boði eru öryrkjar enn skertir krónu á móti krónu. Í hennar boði búa tugir þúsunda Íslendinga við framfærslu sem er langt undir framfærsluviðmiðunum velferðarráðuneytisins.”

Þetta er ljót lýsing á frammistöðu vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Hún reynist ekki vera mikill sósíalistaleiðtogi loksins þegar hún fær tækifæri til að leiða ríkisstjórn. Hún lofar hinum stjórnarflokkunum að standa vörð um sérhagsmuni í sjávarútvegi og landbúnaði, gæta hagsmuna hinna fáu og ríku en lætur undir höfuð leggjast að koma til móts við þá sem höllustum fæti standa og VG lofaði öllu fögru fyrir kosningar.

Katrín Jakobsdóttir er komin í mikla vörn innan VG vegna kosningasvika og fráhvarfs frá grundvallarstefnumálum flokksins og hún virðist ekki ráða við hina stjórnarflokkana sem stilla sér þétt upp í vörn fyrir sérhagsmuni hinna ríku.

Þá er allt eins líklegt að úrslit sveitarstjórnarkosninga verði enn eitt áfallið fyrir VG og Katrínu. Reyndar fyrir alla ríkisstjórnina því útlitið er heldur ekki gott hjá Framsókn og Sjálfstæðisflokki hvað það varðar.

Katrín Jakobsdóttir mun ekki ráða við þessa erfiðu stöðu mikið lengur. Hún bíður nú eftir kærkomnu sumarleyfi Alþingis sem hefst í byrjun júni. Þá gefst næði til að jafna sig. En svo kemur að skuldadögunum í haust. Hvað verður um Katrínu Jakobsdóttur þá?

 

Rtá.