Stjórnsýsla Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á þessum fyrstu tveimur mánuðum valdatíma hennar hefur valdið mjög miklum vonbrigðum. Hún virðist halda að það muni duga henni að brosa og svara krefjandi spurningum með orðaflaumi og tillögum um að “skoða” málin, “íhuga” eða svæfa í nefnd. Tími innantómra orða er liðinn. Nú er krafist svara af henni en þá kemur fram að hún hefur engin svör, er búin að ýta stefnumálum og grundvallarhugsunum til hliðar. Nú skiptir valdið eitt máli. Ekki rugga bátnum til að missa ekki völdin.
Katrín hefur verið vinsælasti stjórnmálamaður landsins hin síðari ár. Hún hefur haldið Vinstri grænum á floti með persónulegum vinsældum sínum og fengið frið fyrir gagnrýni af einhverjum ástæðum. Þegar hún var menntamálaráðherra 2009 til 2013, var hún einnig í skjóli á meðan aðrir ráðherrar flokksins fengu það óþvegið. Sem ráðherra menntamála gerði hún ekkert sem lifir í minningunni. Aðgerðarleysi hennar í ráðuneytinu er best varðveitta leyndarmál vinstri stjórnar Jóhönnu og Steingríms J.
Á flokksþingi VG í dag sagði hún að það hefi ekki “verið hluti af pólitískri menningu” á Íslandi að ráðherrar axli ábyrgð á misgjörðum sínum. Þetta er svar hennar við því að hún skuli sætta sig við að Sigríður Andersen sitji áfram sem dómsmálaráðherra í ríkisstjórn formanns VG eftir að hafa verið dæmd sek í Hæstarétti.
Þetta er rangt hjá Katrínu. Tveir ráðherrar hafa sagt af sér embætti fyrir minni sakir en Sigríður hefur verið dæmd sek fyrir. Það eru þeir Guðmundur Árni Stefánsson og Albert Guðmundsson. Tveir aðrir ráðherrar hafa sagt af sér embætti fyrir svipaðar sakir og Sigríður Andersen hefur hlotið dóm fyrir. Það eru Hanna Birna Kristjánsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Með því að sýna meðlíðan með siðleysi Sigríðar Andersen og Sjálfstæðisflokksins hefur Katrín Jakobsdóttir valdið þjóðinni miklum vonbrigðum. Hún virðist ekki ætla að beita sér fyrir neinni siðvæðingu í stjórnmálum landsins. Hún verður eins og hinir; hugsar einungis um að halda völdum og rugga engum bátum.
Vinsældir Katrínar eru að fjúka út í veður og vind. Hún er að missa allt traust. Katrín Jakobsdóttir er þegar orðin stjörnuhrap ársins 2018 – þó enn sé ekki liðinn einn mánuður af árinu.
Rtá.