Ekki verður annað sagt en að yfirgripsmikill skortur sé á þjóðarleiðtogum nú um stundir. Eldri maður situr á Bessastöðum. Honum má eflaust margt gott þakka en Ólafur Ragnar Grímsson hefur líka verið kallaður forseti sundrungar og átaka. Gamall stríðsmaður sem hann er úr pólitíkinni, hafði hann vit á að láta sig hverfa um stund og kúvenda ímyndinni fyrir forsetakosningarnar 1996. Hann fór að tala um kirkjuna og trúmál, mætti á handboltaleiki, brosti landsföðurlega, þagði í nokkra mánuði og tefldi fram vinsælli eiginkonu sinni sjálfum sér framar á mynd sem öðru fremur er talin hafa leitt til þess að ÓRG vann kosninguna.
Síðan eru liðin of mörg ár. Annars ágætur ferill ÓRG sem forseta hefur trosnað síðastliðin fjögur ár. Hans tími er liðinn. Stór hluti þjóðarinnar telur hann ekki sinn þjóðhöfðingja. Ekki lengur.
Víkur þá sögu að Dolla og Dodda, þeim Sigmundi Davíð og Bjarna Ben. Oddamenn ríkisstjórnarinnar eru ungir menn, báðir sterkríkir en annar miklu efnaðri en hinn. Annar fæddist með silfurskeið í munni en hinn fann gullskeið milli sex ára jaxlanna. Efnahagslegar vöggugjafir þeirra og skortur á jarðbindingu hafa orðið til þess að báðir virðast firrtir hinum almenna manni. Hinn almenni Íslendingur þekkir ekki annað en að djöflast með báðum höndum frá morgni til kvölds til að geta borgað matinn, húsið, bílinn og skuldirnar. Hinn almenni maður er of upptekinn við yfirvinnuna til að nenna að hafa skoðun þegar Bjarni Ben breytir sér í Icehot1. En Icehot getur hvorki orðið landsfaðir í þessu landi né öðrum, það er af og frá. Icehot1 er Gosi.
Sigmundur Davíð hefur ólíkt Icehot1 ekki látið taka sig í bólinu, vafrandi á vafasömum netsíðum. Sigmundur var aftur á móti sérlega latur fréttamaður þegar hann vann hjá Rúv eftir því sem fréttamaðurinn Magnús Hlynur hefur látið hafa eftir sér í útvarpi. Svo fór SDG í doktorsnám sem hann náði ekki klára hvað sem hver segir. Hann kláraði aftur á móti flutning lögheimilis á austlenskt eyðibýli og hann er alveg klár á því að ræðu skuli helst ekki flytja án þess að koma fyrir a.m.k. einni setningu fyrir þar sem heimsmet ber á góma. Þegar SDG talar um \"íslensku heimsmetin\" tútnar hann út en hverfur stundum í nokkra daga á eftir. Jóhannes útskýrari hefur þá nóg að gera. Svo birtist SDG aftur og þakkar sjálfum sér persónulega að Ísland hafi risið úr öskustó hrunsins. Það eitt og út af fyrir sig sýnir að hann er ekki þjóðhöfðingi. Auðmýkt var orðið sem við lýstum eftir að loknu hruni.
Við erum því sem þjóð ansi illa farin af landsforeldralegu munaðarleysi. Skortur á góðum þjóðhöfðingjum skýrir kannski hvers vegna svo margir hafa talað niður forsetaembættið síðustu mánuði. Við vorum kannski mörg hver farin að trúa því að næsti forseti yrði fífl og að jafnvel ættum við ekkert skárra skilið.
En eftir könnun MMR sem Stundin birti í dag fæðist ný von. Þjóðin hefur með miklum yfirburðum valið Katrínu Jakobsdóttur sem forsetaefni á Bessastöðum. Katrín hefur brugðist við með því að svara fréttamönnum með allt öðrum hætti en hún hefur gert síðustu sex mánuði, aðspurð um framboðshug. Nú ætlar Katrín á grunni vinsælda sinna meðal þjóðarinnar skv. nýju könnuninni að íhuga \"mjög alvarlega\" hvort hún gefi kost á sér til forseta Íslands.
Eftir mörg mögur ár sjá því margir fyrir sér þennan daginn nýja landsmóður í Katrínu Jakobsdóttur á Bessastöðum. Vel mætti kalla Katrínu hina nýju Vigdísi. Þær tvær, Katrín og Vigdís Finnbogadóttir, eiga sameiginlegt að deila menningarlegum bakgrunni. Báðar eru kraftmiklar, ákveðnar, með þokka, góða greind og alveg helling af húmor. Vinsældir Katrínar hafa í áranna rás náð langt út fyrir raðir VG. Áhangendur VG eru satt best að segja ekki líklegastir til að nefna nafn hennar upphátt í skoðanamyndandi fylgiskönnunum þegar spurt um baráttuna á Bessastöðum. Það er af því að VG-fólkið vill ekki missa hana burt. VG vantar leiðtoga til að taka við flokknum ef Katrín uppfærir sig á Bessastaði.
Og er Katrín ekki líka prýðilega gift?
Allt lýtur að einu. Í dag má lesa á facebook slagorð eins og: \"Konu á Bessastaði!\", \"Börn á Bessastaði!\" Það er létt yfir íslenskri þjóð þennan daginn. Ferill Katrínar enda óflekkaður með öllu, Katrín er kona sem flestir tengja sig við með manneskjulegum hætti. Katrín hefur alla burði til að verða ný landsmóðir. Þótt maður skilji að hún líti á það fremur sem fórn en tækifæri að helga líf sitt forsetaembættinu, margra barna ungt foreldri sem hún er og vinsæl í því sem hún gerir, hefur hún áður haft nef fyrir auðmýktinni sem okkur dreymir öll um að fá að sjá meira af. Hluti þeirrar auðmýktar kann að vera að Katín svari kalli hinnar íslensku munaðarlausu þjóðar.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)