Katrín jak, bjarni ben og sigurður ingi reyna að blekkja þjóðina með „samgöngusáttmála“

Enn á ný reynir núverandi ríkisstjórn að blekkja kjósendur með með tali um „sáttmála“. Þar hefur ríkisvaldið og sveitarfélög komið sér saman um fjárveitingar til samgöngumála sem reynt er að láta líta út sem stórvirki en er í raun og veru smátt. Þeir sem mestu máli skipta eru ekki aðilar „sáttmálans“ en það eru kjósendur sem eiga að borga stóran hluta af þessu dæmi í formi vegatolla sem eru viðbótarskattar á bíleigendur.

 

Hér er ekki um merkilegt átak að ræða eins og full þörf hefði verið á. Áætlun upp á 120 milljarða til 15 ára ber ekki vott um stórhug eða miknn skilning á brýnni þörf fyrir samgöngubætur í landinu, jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem og annars staðar á landinu. Hér er einungis um að ræða átta milljarða króna á ári að meðaltali. Það er hreint ekki mikið. Það er smátt og tekur allt of langan tíma.

 

Ef hér hefði verið lagt upp með 120 milljarða króna verkefni til fjögurra eða fimm ára, þá hefði verið sanngjarnt að tala um stórátak. Hér er ekki um neitt stórátak að ræða. Miklu frekar sýndarmennskuátak til að slá ryki í augu kjósenda. Sveitarfélög á höfuðboregarsvæðinu eiga samtals að greiða 15 milljarða af þessu. Það er einn milljarð á ári að meðaltali. Það er minna en villan sem kom upp í áætlanagerð Sorpu sem er í eigu allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og mikið hefur verið fjallað um.

 

Þá er rætt um í tengslum við þetta verkefni að selja hluta af Íslandsbanka og nota andvirðið í þetta  dæmi. Það er jafnvel besti hluti fréttarinnar. Það er löngu tímabært að selja bankann. Ríkisstjórnin hefur beðið og beðið með það, ríkissjóði til stórskaða. Bankar lækka stöðugt í verði um allan heim vegna tæknibreytinga. Vegna þess að ríkisvaldið hefur beðið allt of lengi með að hefja sölu á eignarhlutum í bönkunum hefur virði þeirra rýrnað í höndum ríkissjóðs. Það er því löngu kominn tími til að hefjast handa. Hins vegar hljómar það illa að ætla einungis að selja 25% af hlutafé bankans. Hver vill eiga hlutafé í banka sem ríkið á mikinn meirihluta í? Engir heilvita fjárfestar. Það verður að leggja fram áætlun um sölu á öllu hlutafé bankans á hæfilega löngum tíma sem er að hámarki eitt ár. Þá gætu losnað allt að 150 milljarðar króna í eigu ríkisins sem mætti nýta í samgöngumannvirki og aðrar innviðafjárfestingar. Með því móti gætum við talað um alvöruátak en ekki þá sýndarmennsku sem hér er boðið upp á.

 

Ríkisstjórnin hefur gætt þess að sýna skattgreiðendum ekki á spilin varðandi fyrirhugaða gjaldtöku á bíleigendur, bæði í formi vegatolla og annarra skatta. Eina sem hefur komið fram er að svo virðist sem ætlunin sé að láta íbúa höfuðborgarsvæðisins greiða megnið af fyrirhuguðum vegatollum. Landabyggðin á að sleppa. Dæmigerð framsóknarmennska þar á ferðinni enda eru núverandi stjórnarflokkar allir framsóknarflokkar, þó í mismiklum mæli. Hér er um skefjalaust misrétti að ræða á milli kjósenda þéttbýlis og dreifbýlis. Rótin að því er misvægi atkvæða í landinu. Það fæst ekki leiðrétt fyrr en Ísland verður eitt kjördæmi. Þá verða atkvæði allra landsmanna jöfn að vægi.