Katrín gefur bjarna ben upp sakir

Forsætisráðherra er kominn inn á algjörlega nýja braut. Katrín Jakobsdóttir er farin að gefa völdu fólki upp sakir. Fróðlegt verður að fylgjast með því hve langt hún ætlar að ganga í þessum efnum. Þá verður einnig athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum þeirra sem fá ekki sakaruppgjöf frá forsætisráðherra. Þá verður væntanlega spurt um jafnræði þegnanna. Sumir virðast vera jafnari en aðrir gagnvart lögum landsins.

 

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, veiddi Katrínu Jakobsdóttur í gildru við umræður á Alþingi í gær. Svör Katrínar voru með ólíkindum og hljóta að draga dilk á eftir sér. Logi vísaði í 12 blaðsíðna úttekt Stundarinnar á fjármálavafstri Bjarna Benediktssonar dagana fyrir hrun árið 2008 og vitnaði í afhjúpanir blaðsins sem voru stöðvaðar með lögbanni viku fyrir kosningar í fyrra. Logi sagðist velta því fyrir sér hvort viðskipti Bjarna og nánustu ættingja hans dagana fyrir hrun væru til marks um sjálfsbjargarviðleitni, siðleysi eða jafnvel heigulshátt. Logi sagði m.a.: „Ný gögn sýna að umsvifin voru miklu meiri en áður var talið.“

Hann spurði forsætisráðherra hvort það væri eðlilegt, heppilegt og líklegt til að skapa traust að Bjarni Benediktsson með sinn bakgrunn færi með völd yfir fjármálum ríkisins og hefði á sinni könnu að skipa stjórn Fjármálaeftirlitsins.

 

Katrín Jakobsdóttir svaraði því til að hún léti „aðgerðir manna fyrir hrun“ ekki hafa áhrif á sig og þar með skipti háttsemi „fyrir hrun“ ekki máli við val á ráðherrum í ríkisstjórn.  Hún er með öðrum orðum að gefa fólki upp sakir vegna þess sem það kann að hafa gert af sér „fyrir hrun“. Það er mjög athyglisvert að forsætisráherra telji sig þess umkominn að veita fólki sakaruppgjöf með þessum hætti!  Hvað skyldu þeir menn segja við þessu sem hlotið hafa refsidóma vegna háttsemi sinnar „fyrir hrun“, t.d. þeir sem hafa þurft að afplána fangelsisvist í nokkur ár? Þeir hljóta að spyrja um jafnræði gagnvart þegnunum en sumir þeirra fengu dóma vegna inherjasvika eins og Stundin gefur til kynna að Bjarni Benediktsson sé væntanlega sekur um þó ekki hafi þótt ástæða til að lögsækja hann. Allt er þetta spurning um Jón og séra Jón.

 

Stundin rifjar upp að fyrirtæki, félög og einkahlutafélög sem Bjarni Benediktsson var stjórnarmaður, stjórnarformaður eða hluthafi í hafi tapað 130 milljörðum króna í hruninu á verðlagi þess tíma. Á núverandi verðlagi er um að ræða fjárhæðir sem eru nærri 250 milljörðum króna. Hér er um að ræða fjármálavafstur sem endaði illa og leiddi til þess að kröfuhafar töpuðu þessum fjárhæðum. Stór hluti af kröfum sem töpuðust með þessum hætti voru í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Fólkið í landinu tapaði á þessum umsvifum. Kjósendur á Íslandi eiga lífeyrissjóðina sem urðu fyrir tapi vegna umsvifa Bjarna Benediktssonar og hans nánustu. Fjórðungur þjóðarinnar heldur samt áfram að kjósa Bjarna og flokk hans.

 

Logi Einarsson var hreint ekki ánægður með svör forsætisráðherra og spurði „hvort lærdómurinn væri sá að siðferðisreglur giltu ekki fyrir alla“. Von að spurt sé. Verður ekki að fara fram á það að Katrín Jakobsdóttir upplýsi hverjir séu undanþegnir almennum siðferðiskröfum og hverjir séu hafnir yfir lög landsins.

 

Katrín Jakobsdóttir er komin út á afar þunnan ís. Flokkur hennar er rúinn trausti og kominn niður í 10% fylgi samkvæmt Gallup-könnunum. Ekki mun traust þjóðarinnar á henni aukast við þetta. Fylgið mun halda áfram að hrynja af Vinstri grænum. Það er allt í lagi því þeir eiga ekkert annað skilið vegna augljósrar þjónkunar sinnar við valdið. Katrín gerir allt til að hanga með flokk sinn inni í ríkisstjórn. Allt er falt.

 

Rtá.