Í þjóðhátíðarræðu sinni á Austurvelli í gær barmaði Katrín Jakobsdóttir sér undan fjölmiðlaumræðunni um stjórnmál á Íslandi sem hún segir að sé “sundrandi”. Ekki var hægt að skilja ræðu forsætisráðherra með öðrum hætti en kröfu um þöggun. Það á ekkert að vera að tala um sviknu kosningaloforðin og hvernig núverandi ríkisstjórn sveigir frá grundvallarstefnum sínum eins og ekkert sé sjálfsagðara. Allt fyrir völdin gæti verið slagorð þessarar stjórnar undir forsæti Katrínar.
Það er með ólíkindum að forsætisráðherra ríkisstjórnar sem aðhyllist einangrunarstefnu gagnvart útlöndum skuli láta annað eins frá sér fara í hátíðarræðu og eftirfarandi tilvitnun:
“Tryggjum eðlileg samskipti þjóða og fjölþjóðlegt samstarf. Berjumst gegn því að múrar vegði byggðir milli landa og teljum ekki einstrengisngshátt til sérstakra dyggða.”
Grundvallarstefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur gagnvart útlöndum er einmitt þveröfug við það sem hún sagði. Stefnan snýst um einangrun frá nágrannaríkjunum. Ekkert samstarf við ESB, ekkert samstarf um alvörumynnt. Framtíðarsýn þessarar ríkisstjórnar er dekur við íslenska örkrónu, minnsta mynntkerfi í heimi, en ekki samstarf við þá sem gætu tryggt framtíðaröryggi okkar. Það má ekki minnast á ESB. Frekar vill ríkisstjórn Katrínar fara sínar eigin leiðir með örkrónuna og bíða eftir næsta hruni. Hrunið fyrir nær 10 árum stafaði ekki síst af því að íslenska krónan lék efnahagskerfi landsmanna svo grátt að allt hrundi yfir okkur. Enginn í heimminum vildi þessar krónur þegar á reyndi. Og því fór sem fór.
Þó það sér afar ósmekklegt hjá forsætisráðherra að krefjast þöggunar í hátíðarræðu til að koma í veg fyrir lýðræðisleg skoðanaskipti, þá er það skiljanlegt í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur hagað sér frá því hún tók við völdum. Vitanlega vill Katrín að sem minnst sé talað um öll kosningasvikin og hvernig þessir flokkar hafa farið á svig við grundvallarstefnuskrár sínar, ekki síst flokkur Katrínar, Vinstri græn. Sá flokkur hefur gefið nánast allt eftir til að tryggja sér valdastöður forsætisráðherra og forseta Alþingis.
Fyrir kosningar sl. haust lofuðu stjórnarflokkarnir að bæta stöðu hinna verst settu í þjóðfélaginu strax. Vinstri græn gengu harðast allra fram með þessi kosningaloforð sem hafa öll verið svikin. Svörin voru þau að ekki væri hægt að efna þessi kosningaloforð strax því tími til að ganga frá fjárlögum vegna ársins 2018 væri of naumur. Hann var einnig of naumur til að lækka virðisaukaskatt á bækur sem var skýrt kosningaloforð sem átti að framkvæma strax. En það var ekki gert strax en lofað “seinna”. Hins vegar var nægur tími hjá nýrri ríkisstjórn af afgreiða 600 milljón króna viðbótarframlag til sauðfjárbænda og einnig vannst tími til að hækka framlög til stjórnmálaflokka um 127% milli ára um 360 milljónir króna! Því hafði enginn flokkur lofað fyrir kosningar.
Nýjasta dæmið um þjónkun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur við sérhagsmuni hinna ríku á kostnað almennings var tilraun til að lækka veiðileyfagjöld í sjávarútvegi um 3 milljarða á síðustu dögum þingsins. Þá átti að skerða tekjur ríkissjóðs um þrjá milljarða til að bæta hag sægreifa, það átti af gefa þeim enn meiri afslátt af því gjaldi sem þeir greiða fyrir leiguafnot af fiskistofnunum sem eru sameign þjóðarinnar en ekki séreign atvinnurekenda í sjávarútvegi. Þetta feigðarflan var stöðvað, alla vega í bili.
Þá sárnar mörgum landsmönnum hvernig ríkisvaldið kemur fram við kvennastéttina ljósmæður sem eru samningslausar eftir margra mánaða óskiljanlegt þref við ríkið. Hvar er nú heilbrigðisráðherrann og forsætisráðherrann, báðar úr Vinstri grænum? Margir kjósendur hyggjast muna þeim aðgerðarleysið og skort á stuðningi við þessa mikilvægu kvennastétt. Ekki nægir að tala blíðlega um fólk á tyllidögum. Verkin þurfa að tala. Það hefur ekki gerst í tíð núverandi ríkisstjórnar gagnvart launþegahreyfingunni.
Vinstri græn eru einnig farin að svíkjast um í náttúruverndarmálum og þeir svíkja skýra stefnu sína hvað varðar dýravernd með því að heimila glórulaust stórhvaladráp sem Hvalur hf. ætlar að hefja að nýju eftir nokkra daga.
Margt fleira mætti nefna því ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttar getur ekki státað af neinum afrekurm. Og þá krefst forsætisráðherra þöggunar.
Rtá.