Karlar sem misnota kímnigáfu

Ætli nokkur leikjafræði (strategía) sé meira stunduð á Íslandi en þegar einn veður á skítugum skónum yfir annan, særir hann og segir svo þegar viðbrögð þolanda verða ljós: „Ekki taka þetta bókstaflega, vina/vinur. Láttu ekki svona. Ég er bara að grínast.“

Húmor eða yfirskyn húmors er nefnilega gróflega misnotað valdatæki hér, þá einkum af hálfu stjórnenda, yfirmanna, pólitíkusa.

Fullyrða má að karlar séu iðnari við að ástunda þessa vondu íþrótt en konur. Segir sig líka sjálft að stjórnunarreynsla og leikjafræði atvinnulífsins hefur lengst af verið karllæg auk þess sem mun fleiri karlar eru stjórnendur en konur. Hluti orðræðunnar snýst um að halda yfirráðum, viðhalda kynjakerfinu. Fleiri konur en karlar kvarta undan þessu bragði.

Það getur verið snúið að ráða við mann sem segist bara hafa verið að grínast, snýr ábyrgðinni við þótt hann hafi meitt mann en ekki öfugt. Það er ömurlegt að lenda fyrst í aðstæðum þar sem fram kemur að það sé eitthvað að mann og fá svo ásökun um fattleysi, fýlu eða a.m.k. kímnigáfuskort í kaupbæti.

Þetta er umhugsunarefni, því húmor þarf einnig að njóta ákveðins frelsis. En þetta frelsi má hæglega misnota.

Kannski ætti það að vera eins með orð og kynferðislega áreitni. Ef einum líður illa vegna þess sem annar gerir ætti að gilda einu hvernig hinn síðarnefndi verst. Í öllu falli ættu þeir að bregðast við sem sjá að framkoma þeirra er meiðandi. Sá ber ábyrgðina sem fer yfir mörk og móðgar og særir, ekki þolandinn.

Maður þarf ekkert að vera helsænskur eða sérstaklega meðvitaður um pólitískan rétttrúnað til að sjá að sumir hafa lært þá list að mastera ofbeldi með ýmsum hætti og m.a. undir formerkjum húmors.

Ofbeldi er alls konar. Skerum upp herör gegn því.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut)