\"Grindarbotnsæfingar eru ekkert einkamál kvenna,\" segir Halldóra Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur í einstaklega skemmtilegum og bráðfyndnum þætti af \"Fólk með SIrrý\" sem frumsýndur var á Hringbraut að kveldi 16. júní síðastliðinn.
Sjaldan eða aldrei hefur verið hlegið jafn mikið við upptökur á þætti á Hringbrautinni og í þetta skipti, enda talar þar Halldóra af slíku hispursleysi um ýmislegt það sem miðaldra fólk þarf að huga að til að halda í góða heilsu og njóta góðs kynlífs. Og það er ekki eins og hún tali bara í þættinum; hún kennir körlum grindarbotnsæfingar með þvílíkum tilfæringum að eftir verður tekið á heimilum landsmanna. Þar eru þvottapokar nauðsynlegt hjálpartæki, en karlmenn eru hvattir til að hengja einn slíkan á vininn til að efla vöðvana undir niðri. Fyrir lengra komna geti verið ráð að bleyta pokann til upphengingar á jafnaldrann og þeir allra flinkustu skutla ekki aðeins heilu handklæði yfir liminn heldur bleyta vel í því öllu áður en það er sumsé hengt upp á vel strengdan þráðinn. Þá fyrst finni grindarbotninn fyrir því!
Aðrir gestir í þessum líflega þætti fóru líka á kostum. Kristín Einarsdóttir spáir metsölu í þvottapokum í kjölfarið og Helgi Pétursson tónlistarmaður segir frá sinni aðferð, baksundi, við þjálfun grindarbotnsins, en óhætt er að segja að tónlistarmaðurinn kunni hafi á stundum verið harla vandræðalegur í þættinum þar sem hann sat undir bersöglisögnunum á báða bóga.