Kári Stefánsson er trúlega mesti stríðnispúki landsins. Hann hefur yndi af því að ögra og draga menn fram á vígvöllinn. Þegar honum tekst það þá leikur hann sér að viðfangsefninu eins og köttur að mús.
Gott dæmi um þetta er þegar hann gagnrýndi Sigmund Davíð Gunnlaugsson harkalega meðan hann var ennþá forsætisráðherra. Sigmundur var svo grunnhygginn að svara ásökunum Kára og þar með voru ritdeilur hafnar þar sem Kári lék við hvern sinn fingur og hafði fullan sigur.
Hrekkjalómurinn Kári ritaði Bjarna Benediktssyni opið bréf í liðinni viku og hvatti forsætisráðherra til að svara fyrir sig. Bréfið var hárbeitt að hætti Kára og tók á viðkvæmum málum.
Bjarni hefur ekki svarað. Trúlega minnugur þeirrar útreiðar sem Sigmundur Davíð hlaut.
Þess í stað stígur frændi Bjarna inn í hringinn og bíður örlag sinna. Benedikt Einarsson Sveinssonar gerir veikburða tilraun til að svara Kára, frænda sínum til varnar. Hann hefði betur sleppt því. Svo aumt er yfirklór hans. Ætla má að Kári haldi nú áfram og snúi hnífnum í sárum þeirra frænda.
Benedikt Einarsson reyndi að hvítþvo Einar Sveinsson, föður sinn, Bjarna sjálfan og frændgarðinn allan. En það reyndist vera óttalegur kattarþvottur, verri en enginn.
Benedikt þessi hefði frekar átt að upplýsa lesendur Fréttablaðsins um ríkisstyrkina sem þeir frændur fengu í silungseldisfyrirtæki þeirra á Suðurnesjum frá Ragnheiði Elínu þegar hún var iðnaðarráðherra.
Eins væri fróðlegt að hann upplýsti um aðkomu þeirra að umdeilda fyrirtækinu Klínikkinni sem Kári Stefánsson uppnefndi \"Ármúlasjoppuna\", að ekki sé nú talað um öll fyrirtæki þeirra sem gerð voru gjaldþrota í hruninu upp á 130 milljarða króna og Stundin hefur fjallað skilmerkilega um. Þá tapaði þjóðin á þeim gegnum lífeyrissjóðina.
Það er því miður margt í kringum fjölskyldu forsætisráðherra sem þolir ekki dagsljósið.
Kári Stefánsson virðist vita óþægilega mikið um það. Við bíðum eftir næsta þætti.