Kári furðar sig á Vilborgu: „Hún er alveg gjörsamlega úti í mýri“ – Fagnar nýju megrunarlyfjunum

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist fagna nýjum megrunarlyfjum sem tífaldast hafa í notkun hér á landi. Kári segir þetta í viðtali við Fréttablaðið í dag þar sem hann segir Samtök um líkamsvirðingu vera úti í mýri í umræðunni um lyfin. Hann segir offitu vera stærsta heilbrigðisvandamál samtímans.

Kári vísar meðal annars í viðtal við næringarfræðinginn Vilborgu Kolbrúnu Vilmundardóttur sem er jafnframt stjórnarkona í Samtökum um líkamsvirðingu. Fréttablaðið ræddi við hana á dögunum þar sem hún sagði að vísindaleg rök styðji ekki skilgreiningu offitu sem sjúkdóms og notkunar megrunarlyfja á borð við Ozempic og Saxenda gegn henni.

„Offitu fylgir gífurlega aukin hætta á hjartabilun, lifrarskemmdum, sykursýki fullorðinna, kæfisvefni, slitgigt hjá ungu fólki og allskonar krabbameinum. Það sem meira er að það er bókstaflega línulegt samband milli offitunnar og þeirra mælikvarða sem eru notaðir á offitu og hættunnar af þessum sjúkdómum. Þannig það fylgir þessu gífurleg áhætta.“

Kári segir við Fréttablaðið að það sé meðal annars búið að sýna fram á með hjáveituaðgerðum að það að léttast auki lífslíkur. „Það er bókstaflega búið að sýna fram á að það fólk sem hefur komist burt úr þessari offitu með róttækum aðgerðum, að það lengir líf umtalsvert,“ segir Kári og bætir við:

„Þannig að þessar staðhæfingar hjá stjórnarmeðlimnum, hún segist hafa fylgst vel með en ég veit ekki hvað hún hefur lesið, því hún er alveg gjörsamlega út í mýri þegar að þessu kemur.“

Ítarlega er rætt við Kára í Fréttablaðinu í dag. Viðtalið má einnig lesa í heild sinni á vef Fréttablaðsins, Fréttablaðið.is.