Línur eru byrjaðar að skýrast varðandi framboðslista Sósíalistaflokksins og búið að birta listana í Kraganum og Reykjavík suður. Listarnir ku vera valdir af uppstillingarnefndum sem sjálfar eru valdar með slembivali.
Ef marka má listana tvo sem birtir hafa verið mætti ætla að slembival hafi einnig ráðið röðun á listana sjálfa. Leitun er þar að fólki sem hefur látið til sín taka í pólitískri umræðu fram til þessa. Nöfnin eru flest með öllu nær óþekkt. En ef til vill var slembival samt ekki notað við röðun á listana. Ákveðinn rauður þráður virðist nefnilega skína í gegn. Flestir frambjóðendur, alla vega í efstu sætum, eru mennta- og listafólk. Fulltrúar öreiga og verkalýðs eru hvergi sjáanlegir.
Annar rauður þráður er að enginn frambjóðenda er líklegur til að skyggja á flokkseigandann sjálfan, Gunnar Smára Egilsson. Sem eflaust er ekki tilviljun. Sósíalistaflokkurinn er vitanlega nær þinglýst eign Gunnars og hefur þann tilgang helstan að tryggja stofnanda sínum þægilega innivinnu á góðum launum.
Gunnar Smári virðist hafa fundið öreigann innra með sér eftir margra ára þrautagöngu á beinni braut kapítalismans þar sem hann gerðist samferðamaður viðskiptajöfra sem fjármögnuðu fríblaðaævintýri hans austan hafs og vestan. Sjálfur var hann verkamaður í aldingarði viðskiptavelda en tæplega starfsmaður á plani og ekki á dagsbrúnartaxta sjálfur þótt hann stýrði fjölmiðlaveldinu Dagsbrún um skeið.
Nokkuð ljóst er að Gunnar Smári ætlar sjálfum sér oddvitasæti Sósíalistaflokksins í Reykjavík norður. Ekkert slembival þar. Trú oddvitans og talsmanns flokksins á eigin sannfæringarkrafti virðist alger. Aðrir frambjóðendur flokksins hafa litla sem enga burði til að höfða til kjósenda. Litlaus, einsleitur hópur menntafólks, kennara og listamanna höfðar seint til verkafólks og öreiganna sem Gunnar Smári segir Sósíalistaflokkinn berjast fyrir.
Óhætt er að segja að á þeim listum Sósíalistaflokksins sem þegar hafa verið birtir sé ekki ein einasta kanóna. Ekki einn einasti frambjóðandi sem dregur atkvæði að flokknum. Kjósendur sem tryggja vilja kennurum og listafólki þingsæti hafa þegar úr nægu að velja. Þeir geta einfaldlega kosið Samfylkinguna eða Vinstri græna. Í raun er með öllu óskiljanlegt að Gunnar Smári skuli reyna að apa eftir Samfylkingu og VG við val á framboðslista. Helsti munurinn er að hann stillir að mestu fram alls óþekktu fólki, alla vega í þau sæti sem hugsanlega gætu náð á þing.
Hvar eru fulltrúar launþega á listum Sósíalistaflokksins? Hvar eru fulltrúar verkalýðsins? Hvar er Sólveig Anna Jónsdóttir? Hvar er Ragnar Þór Ingólfsson? Hvar er Drífa Snædal? Á fólk að hafa trú á því að háskólamenntað millistéttarfólk og listaspírur, sem hefur hvorki heyrst né sést fram til þessa, sé einmitt rétta fólkið til að berjast fyrir bættum kjörum ófaglærðs verkafólks og skapa fyrirmyndarríki sósíalismans á Íslandi? Trúir Gunnar Smári þessu sjálfur? Er sannfæringarkrafturinn ef til vill svo mikill að hann sé búinn að sannfæra sjálfan sig?
- Ólafur Arnarson