Kannski besta grillsósan

Grillssósur eiga að vera ferskar til að magna upp hughrifin af glóðarmatnum sem getur náttúrlega verið hvað sem er; kjöt, fiskur, eða grillað grænmeti. Þá kemur þessi hér til greina en kosturinn við hana er hvað auðvelt er að gera hana, fyrir nú utan hitt hvað hún er yndislega góð: Kauptu agúrku, gríska jógúrt og kannski vorlauk og ferska myntu úti í búð og byrjaðu á dásemdinni heima við eldhúsbekkinn. Agúrkan er rifin gróft á rifjárni og látin standa með góðu salti í nokkrar mínútur á þremur bréfum af eldhúsrúllunni svo hún þorni aðeins. Svo er henni skellt í skál með hálfri dós af jógúrt, svona einum vorlauk og hnefabúnti af saxaðri myntu og smávegis hvítlauks- og kúmíndufti. Hagsýnir búa náttúrlega til nokkuð stóran skammt sem dugar í nokkrar máltíðir í hartnær tvær vikur ef hann er geymdur á góðum stað í ísskápnum ...