Sumrin eru tími garðanna og pallanna og margir vilja bæta við nýjungum í garðana sína sem veita gleði og ánægju. Björn Jóhannsson landslagsarkitekt hjá Urban Beat hefur nógu að snúast í hönnun garða þessa dagana og er okkar sá hugmyndaríkasti þegar kemur að nýjungum fyrir garðinn.
„Við hjá Urban Beat erum alltaf að leita að nýjungum fyrir garðinn. Skemmtilegasta nýjungin okkar þessa dagana er kampavínsveggurinn. Við höfum verið að þróa þetta mannvirki síðustu árin og nú er enginn garður án kampavínsveggs,“ segir Björn og hefur aldrei haft meira að gera í kampavínsveggjagerð.
Hér geta gestir staðið við vegginn og spjallað við grillmeistarann./Ljósmyndir frá Urban Beat.
Segðu okkur hvað er kampavínsveggur? Til hvers er hann og hvernig lítur hann út? „Hugmyndin kom upp þegar ég var að vinna að hönnun þakgarðs í Stokkhólmi. Ég og sænskur kollegi minn, hann Johan, vorum að finna leiðir til að brjóta svæðið á þakinu upp. Við mátuðum meðal annars gróðurker, girðingar og skjólveggi. Þegar kom að því að útbúa skilrúm á milli svæðis sem átti að vera sérafnotareitur íbúðar og svæðis sem yrði almenningur fyrir íbúa hússins fannst okkur þurfa eitthvað með sérstökum karakter. Mannhæðarhár skjólveggur myndi bæði minnka svæðið og mynda skugga í kvöldsólinni. Þarna þurfti mannvirki sem yrði mátulega hátt og virkaði sem hluti af innréttingum beggja svæðanna.“
Hlaðinn kampavínsveggur sem kallast á við hlaðna bekkinn og kantsteinana við beðin.
„Við féllumst á fallega klæddan vegg, mögulega með steinplötu á hliðina sem snéri upp. Svo fór umræðan í hvernig ætti að stilla af hæð og breidd veggjarins. Niðurstaðan var sú að hæðin væri stillt þannig að þægilegt yrði að leggja frá sér glös, kannski sérstaklega kampavínsglös. Þá sagði hann Johan samstarfsmaður minn að auðvitað væri þetta kampavínsveggur.“
LED lýsing undir borðplötunni er falleg og skapar skemmtilega stemningu.
„Næst stilltum við breiddina þannig að platti með snittum kæmist vel fyrir. Þá var orðið partífært við kampavínsvegginn fína. Þarna yrði hægt að standa við vegginn, halla sér upp að honum, sötra kampavín og gæði sér á góðgætinu sem gestgjafinn myndi bera fram.“
Það er upplagt að fá sér fordrykk við kampavínsvegginn áður en sest er að snæðingi inni í útieldhúsinu.
Kampavínsveggurinn setur punktinn yfir i-ið í þessum glæsilega garði.
Nú er bara að fá sér kampavínsvegg og fagna sumri og sól.