Kálfur að vori - belja á svelli :-)

Ég sá einhvers staðar að Logi Bergmann fjölmiðlamaður hefði lýst þeirri skoðun sinni að asahláka væri e.t.v. fallegasta orð íslenskunnar.
Ég tengi við það. Fátt er dásamlega eftir langan og snjóþungan vetur en þegar sól fer að skína og hitastigið rýkur upp. Stundum verður asahlákan í mars, stundum í apríl, fyrir kemur jafnvel hér norðan heiða að við akureyrskir borgarar þurfum að bíða fram í maí eftir alvöru hlýindum. Og svo eru reyndar dæmi um að hvorki hafi komið vor né sumar. Þá er ekki gaman. En asahláka kallar þó stundum á vandræði þótt fátt sé fegurra en vorleysingar hugans. Vatnselgir geta verið strembnir. Flughálka getur fellt fætur og sent bíla út af vegum. Eigi að síður: Fegursta orð í heimi.

Í vikunni sem nú er að líða breyttist veðrið. Þá greip mig þessi vorfiðringur, að halda upp á það þegar hitastiginu sló í nokkrar rauðar. Snjórinn tapaði sér smám saman og sama átti við um mig - af gleði!


Það var miður dagur og ég átti erindi út í búð. Vetrarskó og gúmmístígvél ákvað ég að hundsa í leit að fótabúnaði sem hæfði hátíðarstundinni. Rauða silkiskó frá Kína lét ég eiga sig en þegar ég rak augun í gúmmískóna var teningunum kastað. Og kom á daginn síðar að fleira færi á loft en teningarnir.

Gúmmískór, tékknesku gæðabomsurnar með rauða þríhyrningnum aftan á. Fyrir borinn og barnfæddan Mývetning eru tékkneskar gúmmítúttur tákn lífsins og leysinganna. Gilti einu þennan dag þótt háskaför væri augljóslega fram undan, ferð á svellum innan um læki mikla sem runnu stríðir niður Hrafnagilsstrætið þennan sólardag. Það eru ekki til hálli skór en flatbotna gúmmískór. Kannski eru þeir hættulegstu skór í heimi, en í þeim býr þó frelsið, að minnsta kosti yfirlýsing um frelsi.
Líkt og belja á svelli gekk ég út úr húsinu með bros á vör. Hafði tekið þrjú skref þegar ég tókst á loft og kom öfugur niður á glæruna, en ómeiddur.
Líkt og belja á svelli stóð ég upp úr bleytunni og hélt áfram för.
Líkt og kálfur að vori hoppaði ég af kæti þegar heim var komið á ný.


Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í kvikunni á hringbraut.is)