Kakan sem er svo góð fyrir sálina

Flestir njóta þess að vera heima eða í sumarhíbýlum sínum um helgar og brjóta upp hverdagsleikann með því að bjóða uppá ljúffengar veitingar með helgarkaffinu. Ein af þeim er Brynja Dadda Sverrisdóttir sem starfar hjá Heilsugæslu höfuðborgarasvæðisins og rekur jafnframt lítið fjölskyldufyrirtæki ásamt eiginmanni sínum Hafþóri, smíðaverksstæðið Hnyðju sem sérhæfir sig í að smíða íslenskt handverk og gjafavöru úr tré. Brynja Dadda hefur mikið yndi af matargerð, ýmis konar bakstri og ræktun grænmetis og matjurta. Aðspurð segist hún hins vegar ekki góð í að áframsenda uppskriftir þar sem fæst er skrifað niður og oftast farið eftir tilfinningunni, nema í kökubakstri, þá sé hún nokkuð hlýðin að fara eftir skriflegri uppskrift. „Sérstaklega hef ég unun af því að dvelja í eldhúsinu í sumarhúsinu okkar, Móbergi, sem er í Kjósinni. Þar dveljum við hjónin ansi mikið enda líður okkur best þar,“ segir Brynja Dadda. Við fengum Brynju Döddu til að ljóstra sinni uppáhalds uppskrift af köku sem hún og hennar fólk stenst engan veginn og fellur alltaf í freistni.

„Þar sem ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt þá eru ekkert margar uppskriftir sem teljast uppáhalds, þó er ein kaka sem alltaf er gerð aftur og aftur, sannkallað „sálarfóður“ en síðan er það bara árstíðabundið hvað ég er að bralla í eldhúsinu.“

„Kakan sem er svo góð fyrir sálina. Hver getur neitað svoleiðis köku? Ekki ég, enda kolféll ég fyrir þessari uppskrift þegar ég las hana fyrst. Hún kemur frá Ívari í Smáratúni (Hótel Fljótshlíð ) en ég hef náttúrulega aðeins aðlagað hana að mínu eldhúsi. Hráefnið í henni er s.s. alltaf til í mínu eldhúsi, hún er hrærð í höndum og því lítið mál að skella í eina og það hefur enginn farið frá mér vansæll eftir að hafa smakkað. Ég er því sannfærð um að hún stendur algjörlega undir nafni.“

Kakan sem er svo góð fyrir sálina

1 bolli döðlur

1 bolli pekanhnetur

100 g suðusúkkulaði saxað í matvinnsluvél

½ bolli hrásykur

3 msk. gróft spelt hveiti

1 msk. vanilluextrakt

3 msk heitt vatn

2 egg

1 takk vínsteinslyftiduft

Hitið ofninn í 150°C. Byrjið á því að blanda öllum hráefnunum saman og látið standa smástund. Setjið síðan í miðlungsstórt hringlaga form. Bakið í um það bil 40 mínútur við 150°C hita.

Súkkulaðibráð

100 g suðusúkkulaði

smjörklípa

síróp eftir smekk

Bræðið suðusúkkulaði með smjörklípunni við vægan hita. Hægt er að bæta örlitlu sírópi við til að mýkja súkkulaðibráðina örlítið og áferðin verður fallegri. Hérna má líka leika sér með súkkulaðitegundir og velja það sem hverjum og einum þykir best. Þegar súkkulaðibráðin er tilbúin er henni hellt yfir kökuna og leyft að renna frjálslega niður hliðarnar.

„Mér finnst suðusúkkulaðið með karamellu og salti alveg rosalega gott. Með þessari köku er dásamlegt að bera fram rjóma og ber. Og eins og allir vita bætir allan mat að bera hann fram á fallegum diskum, bökkum og brettum.“ Svo er bara að njóta

Brynja Dadda Sverrisdóttur.jpg