Áramótin 2019 áttu 190 fjölskyldur á Íslandi 155 milljarða.
Í lok árs 2018 tilheyrðu 238 fjölskyldur ríkasta 0,1 prósenti þjóðarinnar og áttu þær samanlagt 260 milljarða króna í eigin fé.
Þær fjölskyldur sem myndatekjuhæsta eitt prósent landsmanna juku auð sinn um 189 milljarða króna á árunum 2017 og 2018.
Ég sting uppá að þessar 190 fjölskyldur stofni sjóð fyrir leikskólakennara, heilbrigðisstarfsfólk, kennara og starfsmenn verslana.
Þetta er fólkið sem hefur haldið samfélaginu gangandi.
Leikskólakennarar gæta barnanna þinna svo þú getir áfram ávaxtað aurana þína.
Kennarar fræða börnin þín.
Starfsfólk verslana afgreiðir þig um matvöru þegar þú ert nýkominn úr skíðaferðinni þinni í Ölpunum.
Úrvinda heilbrigðisstarfsfólk er til staðar fyrir þig og þína.
Öll á smánarlaunum.
Síðast í dag felldu hjúkrunarfræðingar samning sem var lægri í krónum talið næstu fjögur ár en sú hækkun sem ráðherrar eiga von á á einu bretti í sumar! Það gerist á svipuðum tíma og önnur ríkisstjórn úti í heimi lækkar sín laun um 20 prósent til að sýna samstöðu með þeim sem hafa orðið illa úti vegna COVID-19.
Já, kæri ríki Íslendingur, kæra 0,1 prósent og ráðamenn.
Nú er tíminn til að greiða þessu fólki tvöföld laun. Helst milljón á mánuði.
Auðvitað hefði ríkisstjórnin undir eins átt að hækka laun tímabundið á meðan stríðið við alræmda kórónaveiru geisar. Og best væri að leysa málið þann hátt, að áhættuþóknun fyrir þessar lægst launuðu stéttir væri greidd úr ríkissjóði.
Íslenska þjóðin sem ekki tilheyrir 0,1 prósentinu neitar að hlusta á að ekki sé til aur í kassanum. Við því hef ég þetta að segja:
Hér eru álfyrirtæki sem hafa í gegnum árin notað ýmsar fléttur og greitt hundruð milljarða til móðurfyrirtækja erlendis en skilað tapi á blaði hér á landi til að forðast að greiða skatta til íslenskra yfirvalda.
Og þetta:
Árið 2019 var hagnaður tíu útgerða 22 milljarðar.
Nýverið benti prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands á að hreinn hagnaður þeirra útgerða sem ætluðu að sækjast eftir skaðabótum frá íslenska ríkinu af makrílveiðum væri 55,5 milljarðar króna.
Þá hafa arðgreiðslur til eigenda sjávarútvegsfyrirtækja numið 92,5 milljörðum króna frá árinu 2010. Eigið fé geirans er 276 milljarðar króna.
Hagur geirans hefur vænkast um 450 milljarða króna frá hruni!
Kæra ríkisstjórn, hvernig væri nú að stokka upp kvótakerfið?
Hættið linkind og dekri við útgerðarfyrirtæki, sem sumhver nota valdið sem þið færðuð þeim til að rústa byggðum bæði heima og erlendis.
Fáum kvótann heim.
Auðlindir Íslands eiga ekki að vera fyrir útvalda sem örfáar silfurskeiðar njóta góðs af.
Þær eru eign þjóðarinnar.
Og þær skal nýta fyrir alla Íslendinga til að komast í gegnum storminn sem framundan er í íslensku efnahagslífi.