Karl Th. Birgirsson hefur sent frá sér stórskemmtilega bók um forsetakosningarnar árið 2012. Þar lýsir hann ýmsu sem gerðist að tjaldabaki í aðdraganda kosninganna og rekur gang mála í þeirri baráttu sem fram fór. Bókin er merk heimild, bæði um það sem var opinbert og eins hitt sem minna hefur verið vitað um til þessa.
Einkar athyglisvert er að lesa lýsingar á því hvernig Ólafur Ragnar Grímsson náði endurkjöri þó svo hart hafi verið sótt að honum. Þóra Arnórsdóttir hafið mikið forskot um tíma en Ólafur steig fram á réttu augnabliki og snéri dæminu við sér í hag. Víst er að hann beitti ósvífnum aðferðum og réðist að Þóru með hætti sem hefur ekki áður sést í forsetakosningum á Íslandi. Baráttuaðferð Ólafs Ragnars gekk mest út á það að koma Þóru í vörn og láta hana sverja af sér ávirðingar sem Ólafur bar á hana. T.d. það að hún væri útsendari ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms, að framboð hennar hafi verið skipulegt á vettvangi RÚV, að hún væri harður Evrópusinni og að hún ætti myndarlegan feril að baki innan krataflokka.
Flest af þessu var ósatt. En Ólafi tókst að láta kosningabaráttuna snúast um þetta og tók sjálfur forystuna með beittari leiftursókn en sést hefur í stjórnmálum hér á landi á síðari áratugum. Aðferð Ólafs Ragnars bar árangur en hún var hvorki geðsleg né sanngjörn ef marka má bók Karls Th.
Lýsingar á baráttuaðferðum Ólfs Ragnars eru athyglisverðar í ljósi þess sem gerðist fyrir skemmstu með framboði Davíðs Oddssonar til embættis forseta Íslands. Hann ætlaði að beita nákvæmlega sömu aðferðum og Ólafur með því að ráðast að Guðna Th. Jóhannessyni og láta hann svara fyrir sitthvað sem hann hefur sagt eða ekki sagt í fortíðinni. Hann hefur einnig reynt að gera Guðna tortryggilegan með ýmsum hætti og flest af því hefur verið ósanngjarnt eða beinlínis rangt. Aðferð Davíðs hefur verið ósvífin og mjög í anda þess sem Ólafur Ragnar beitti árið 2012.
En Davíð nær engum árangri í kosningabaráttu sinni. Kjósendur hlusta ekki á hann. Þeir treysta Davíð ekki og taka ekki mark á málflutningi hans eins Ólafs Ragnars fyrir 4 árum.
Ólafur Ragnar bar sigur úr bítum með yfirburðum árið 2012. Nú bendir flest til þess að framboð Davíðs verði mesta sneypuför allra tíma í stjórnmálum á Íslandi. Guðni Th. Jóhannesson mun sigra með yfirburðum, trúlega með um helming greiddra atkvæða á bak við sig á meðan Davíð fær um fimmtungs fylgi.
Stuðningsmenn Davíðs hafa eytt tugum milljóna í auglýsingar að undanförnu í þeirri von að rétta hlut hans. Væntanlega verður sá reikningur greiddur af sömu sægreifum og eiga Morgunblaðið. Í heilsíðuauglýsingum birtist okkur þetta slagorð: Látum reynsluna ráða úrslitum. Þessu fylgir hvatning um að kjósa Davíð á grundvelli þess.
Miðað við þær dræmu undirtektir sem framboð Davíðs Oddssonar fær, virðist einmitt vera að kjósendur ætli að láta reynsluna af Davíð ráða úrslitum. Kjósendur hafa slæma reynslu af Davíð Oddssyni, ekki síst á seinni árum eftir að hann fór illu heilli til starfa í Seðlabankanum og svo til Morgunblaðsins. Reynslan af manninum sem setti Seðlabankann á hausinn upp á 300 milljarða króna er þannig að kjósendur segja almennt nei við framboði hans.
Ólafi Ragnari Grímssyni tókst með glans árið 2012 það sem Davíð Oddssyni tekst alls ekki núna. Í hugann koma fleyg orð úr bandarískum stjórnmálum þegar frambjóðandi líkti sér í einhverju við John F. Kennedy forseta. Þá var andmælandi hans snöggur til svars og sagði eitthvað á þessa leið: Elsku vinur, en þú ert enginn Kennedy!
Davíð reyndi að feta í fótspor Ólafs Ragnars með illskeyttum árásum á helsta andstæðing sinn í kosningabaráttunni. En það mistókst. Ólafur Ragnar er einfaldlega miklu snjallari stjórnmálamaður en Davíð. Reynslan af þessum tvennum forsetakosningum sýnir það svo ekki verður um villst.
Kæri Davíð Oddsson, þú ert enginn Ólafur Ragnar og því verður þú aldrei forseti Íslands.