Lára G. Sigurðardóttir, læknir og pistlahöfundur, skrifar um offitu barna í bakþönkum Fréttablaðsins í dag. Varpar hún meðal annars ljósi á það hvernig hægt er að afstýra því að börn verði of feit.
Lára byrjar pistilinn á þessum orðum:
„Þú hefur fitnað,“ sagði kærastinn ákveðinn á meðan við horfðum á bíómynd. Ég var sautján, hann nítján. Á þessum tíma vann ég í Fjarðarkaupum þar sem freistingar voru á hverju horni. Í vasanum leyndist nammipoki og í pásum var stoppað í bakaríinu.“
Hún skrifar svo um þátt Kveiks í síðustu viku þar sem fjallað var um offitu barna. Í þættinum kom fram að börnum með offitu fari fjölgandi og fleiri leiti nú á Landspítala með fitulifur, kæfisvefn og undanfarna sykursýki. Lára segir svo að eitt þekktasta dæmið um offitu komi frá eyjunni Nárú í Kyrrahafi.
„Íbúar eyjunnar voru við eðlilegt holdafar á meðan þeir nærðust á fiski, ávöxtum og grænmeti. Þegar þeir öðluðust sjálfstæði árið 1968 urðu þeir skyndilega ríkir af fosfat-námuvinnslu. Þeir þurftu ekki lengur að veiða fisk og rækta grænmeti og fóru að flytja inn unnar vestrænar matvörur. Með hinum nýju lífsháttum urðu þeir feitasta þjóð jarðríkis en 95 prósent íbúa Nárú eru í yfirþyngd og 61 prósent of feitt.“
Lára bendir á að um alvarlegt mál sé að ræða og vísar í upplýsingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar þess efnis að of feit börn séu í aukinni hættu á að deyja um aldur fram og greinast með hjartasjúkdóm, heilablóðfall, krabbamein og sykursýki.
„Hægt er að afstýra þessu en þá þarf bæði nánasta umhverfi og samfélagið í heild að vinna saman með því að bæta aðgengi að sálfræðingum, heilsusamlegum mat og gera líkamsrækt aðgengilegri. Þurfa íþróttir til dæmis alltaf að snúast um verðlaunapall? Og í betri heimi myndu skólasálfræðingar grípa börnin áður en þau verða of feit því andlegir erfiðleikar geta hæglega steypt þeim í vítahring matarfíknar.“
Lára endar pistilinn á að rifja upp viðbrögð hennar við orðum kærastans á sínum tíma. „Ég hugsaði um að senda kærastann (sem nú er eiginmaður minn) öfugan út en ákvað heldur að losa mig við nammipokann.“