Hrafnhildur Sigmarsdóttir, ráðgjafi hjá Stígamótum, segir að kynni hennar af manni þegar hún bjó í London hafi markað upphafið að áhuga hennar á því sem kallað er NPD, eða Narsissísk persónuleikaröskun.
Hrafnhildur skrifar býsna áhugaverða grein um þetta sem birtist á vef Vísis í morgun, en hún var búsett í London á sínum yngri árum þar sem hún kynntist umræddum manni.
„Með okkur tókust náin kynni og eyddum við töluverðum tíma saman. Hann var heillandi og áhugaverður og mér þótti mikið til hans koma. Hann hældi mér mikið og sagði mig bera af öðrum konum á öllum sviðum. Sum hólin voru svo yfirþyrmandi að ég átti bágt með að trúa þeim en ég var ung og það var gaman að trúa þeim. Upplifun þessara fyrstu kynna voru í samræmi við aldur minn, skynsemisskort og ofurtrú sakleysingjans á óendanleika ástarinnar.“
Augljós meðalmennska
Hrafnhildur segir að Lundúnabúinn hafi verið fremur undarlegur ásýndar, eins og bókstafurinn Þ í laginu og með einkennilegt höfuðlag.
„Hann var með göngulag sem bar vott um augljósa meðalmennsku en háttalag sem bar keim af tilgerðarlegri ofurmennsku. Samt var hann gífurlega sjarmerandi en allur hans sjarmi byggðist á sviðsmyndinni sem hann skapaði. Hann skreytti vel í kringum sig, bæði með stórkostlega ýktum yfirlýsingum um meinta mannkosti sína og óeðlilegan fjölda afrekssagna. Hann setti mig líka á stall og ég upplifði mig í kjölfarið einstaka og eftirsóknarverða. Hann var í mínu augum fullkominn, - í fyrstu.“
Hrafnhildur segir að maðurinn hafi starfað í leikhúsgeiranum og bauð hann henni reglulega á sýningar. Hann gerði mikið úr eigin mikilvægi, vann við að setja upp sýningar og var tíðrætt um álagið sem starfinu fylgir. En ekki var allt sem sýndist.
Ábyrgðarlítið starf
„Ég komst síðan að því seinna að starf hans var bæði lítilvæglegt og ábyrgðarlítið. Hann var hvorki með mannaforráð eða nokkra framkvæmdarstjórn á neinu tengdu uppsetningu leikverka. Hann vann við það að taka saman leikmuni eftir sýningar og setja þá á sinn stað. Hann talaði samt alltaf eins og hann væri þungamiðja alls og að framlag hans væri þýðingarmesti stólpi sýningarinnar. Hann var svo sannfærandi að lengi vel hélt ég að hann væri það. Sannfæringarkraftur hins holaða getur verið magnaður.“
Hrafnhildur segir að gagnkvæm aðdáun hafi ekki verið langlíf og hún farið að taka eftir því hversu illa hann talaði um annað fólk. „Hann gat samt mætt þessu fólki með bros á vör og boðið í drykk. Kvöldin okkar urðu hinsvegar fljótlega stútfull af gremju hans um stolna sigra, brostna drauma og drykkju. Hann varð beiskur á bragðið. Hann fór að gagnrýna mig, skoðanir mínar, menntun mína og útlit mitt, og gerði lítið úr mér á lúmskan hátt. Hægt og rólega eins og snákur sem liðast lengi áður en hann glefsar.“
Sökk ofan í sætið
Hún segist hafa komið sér fljótt frá þessum manni og ekki hlotið varanlegan skaða af. Kynni hennar af manninum hafi þó markað upphafið af áhuga hennar á NPD og fer hún í grein sinni yfir ýmiskonar einkenni röskunarinnar. „Að þeirra mati eru þeir ekki vandamálið. Þessir einstaklingar eru hinsvegar mjög hrifnir af meðferðarsambandi við fagaðila því þar upplifa þeir bæði svið og áheyrn. Þar geta þeir leikið hlutverk þolandans og hlotið ráðleggingar og stuðning í samræmi við það hlutverk sem þjónar tilgangi þeirra hverju sinni. Samskipti við narsissista geta verið hættuleg sálarheill einstaklinga,“ segir hún.
Í lok greinar sinnar segir hún svo frá „lokaleik“ Lundúnabúans og bætir við að undir lok sambandsins hafi sviðsmynd hans verið farin að hrynja. Voru þau stödd á frumsýningu á leikriti sem var skemmtilegt og vel heppnað þegar öllum sem komu að leikritinu var boðið að koma upp á svið og hneigja sig.
„Þarna voru búningadeildin, tæknimenn, sminkur og leikmunir og margir aðrir. Allir komu og hneigðu sig og féllu síðan aftur í myrkrið sem alltaf er innst á sviðinu. Dulúð leikhússins. Minn maður naut sín í botn þegar ljósið skein á leikmunadeildina. Svo hurfu þau í myrkrið, öll nema hann. Hann stóð áfram og brosti og hneigði sig í allar áttir. Ég var orðlaus með galopin augu. Allt varð skýrt. Við hlið leikaranna og hljómsveitarinnar hélt hann áfram að hneigja sig. Kokhraustur og keikur, baðandi sig í lófataki og dýrðarljóma sem var ætlaður öðrum. Holaði maðurinn var að fylla á tankinn sinn.“
Hrafnhildur segir að aðrir leikhúsgestir hafi veitt þessu athygli.
„Konan við hliðina á mér horfði vandræðalega á mig og einhver fyrir aftan sagði “I don´t remember him in the play”. Ég sökk í sætið og í raun sit þar enn þegar kemur að minningunni um þessa aumkunarverðu sjálfsupphafningu sem ég varð vitni af. Hann var sjálfsyfirlýstur sigurvegari stundarinnar og átti eftir að lifa lengi á því. Efni í aðra ýkta afrekssögu sem án efa myndi óma jafn lengi og einhver myndi hlusta. Ég fjarlægði mig hljóðlega úr salnum og hvarf út í myrkrið. Hann veitti því enga eftirtekt.“
Grein Hrafnhildar í heild sinni.