Varla er annað hægt en að brosa yfir því að á 30 ára þátttökuafmæli Íslendinga í Evróvisjón hafi Ríkisútvarpinu tekist með útsendingu gærkvöldsins að leggja eins rausnarlega fram og raun ber vitni - inn í sameiginlegan Gremjubanka landsmanna!
Þeir sem komnir eru af barnsaldri muna vel þegar íslenska þjóðin sameinaðist í von og jafnvel ofurtrú, árið 1986, í fyrsta skipti sem við tókum þátt í Júróvisjón. Götur tæmdust, enginn var á ferli - við vorum öll framan við sjónvarpstækin. Það var nánast formsatriði að vinna þessa keppni - með Gleðibankanum - í fyrsta skipti sem við tókum þátt. En 30 árum síðar er það gremjan sem sameinar áhorfendur. Kannski er veruleikasjokkið nú endanlega að brjótast fram.
Aldrei hefur örþjóð fengið eins svakalega á kjaftinn og árið 1986 í samkeppni í listum. Við fengum á kjaftinn af því að við vorum búin að spana okkur upp í að við værum langbest í heimi! Gunni Þórðar, Helga Möller, Eiki Hauks og Pálmi Gunnarsson voru þjóðargersemar og loks kom tækifæri til að sýna heiminum þessi djásn í beinni útsendingu. Gunni með hvítan trefil og allt! En svo fór sem fór, 16. sætið varð niðurstaðan, sem hefði þó talist gott upphaf hjá öðrum nýgræðingum meðal þjóða. En fyrir okkur voru úrslitin kjaftshögg. En aldrei hefur nokkur þjóð þó lært minna af kjaftshöggi. Árið eftir var sami draumur uppi, heimsyfirráð eða dauði. Eina áhyggjuefnið var hvernig við færum að því að halda keppnina sjálf sem sigurvegarar! Ábyrgð íslenskra fjölmiðla í mótun almenningsálits, væntinga og ofurtrúar er vissulega mikil, fjölmiðlar hafa í 30 ár alið ýmist á óskhyggju eða meðvirkni í kjölfar úrslita. Kannski vegna þess að fjölmiðlafólki finnst svo gaman að tala við keppendurna að þótt þeir kenni heiminum um fremur en eigin framlagi, hafa fjölmiðlaspekingar keypt það blóðhrátt og hent framan í þjóðina.
Það eru 30 ár liðin frá Gleðibankanum en ef marka má viðbrögð á facebook í gærkvöld var minna um gleði á stórafmælinu meðal áhorfenda Rúv en því meira af gremju. Það hlýtur að hafa verið pínlegt fyrir starfsmenn Rúv að lesa alla facebook-statusana sem margir hverjir fjölluðu um það nákvæmlega sama. Að meira að segja börnin nenntu ekki að horfa á þennan legg ísensku undankeppninnar til enda. Með örfáum undantekningum var pródúksjónin enda stirð og tilgerðarleg. Flestum virtist líða fremur illa í útsendingunni og lögin að jafnaði furðu vond með tveimur undantekningum, textarnir flestir hrein hörmung.
Þetta er nú kannski ekki brýnasta þjóðmál samtímas, kynni einhver að segja og kannski á ég heldur fúlli facebook-vini en Ríkisútvarpið að jafnaði. En við blasir að það þarf að taka til innanhúss í hugmyndavinnu Ríkisútvarpsins hvað varðar þessa pródúksjón og á við um fleira. Ekkert þrá foreldrar fremur en ánægjulega samverustund með börnum sínum fyrir framan Júrógaulið. Svona keppni á að vera eitt af því sem réttlætir nefskattinn. En þegar fimm ára barn kýs frekar að fara fram í eldhús og þvo upp en að klára að horfa á keppnina - er eitthvað að. Þá ekki síst hjá þeim sem völdu lögin.
Júrógaulið og frasmetning keppninnar eins og hún birtist okkur í gærkvöld á lítið skylt við góða og gefandi sköpun, því miður er það þannig.
Ég trúi ekki að afurðir gærkvöldsins hafi verið rjóminn af þeim lögum sem bárust. Ég held það hljóti einhver annarleg sjónarmið að hafa ráðið þegar kom að valinu. Það er fullkomin þversögn að annar hver landsmaður sé fær um að semja lag en þessar lagleysur, með tveimur heiðvirðum undantekningum komi upp úr kjörkössunum. Það verður að draga þessa valnefnd til ábyrgðar líkt og fleiri, hún liggur undir grun um að vera ekki verki sínu vaxin. Það er vonandi að lögin eftir viku sem og bragur allur verði í hærri gæðaflokki.
Reynum að hafa þetta síðasta árið þar sem lagt er svo hressilega inn í gremjubankann. Og fjölmiðlar, ekki bara Rúv, - í guðanna bænum reynið að tengja ykkur við þjóðarsálina með því að segja hlutina eins og þeir blasa við. Það er til hellingur af góðri listsköpun hér á landi en stundum hefur þessi keppni ekki borið nokkurn keim af því. Kannski er hliðvörslu um að kenna að fjölmiðlar sýni okkur ekki meiri grasrót, meiri fjölbreytileika. Þegar einhver prumpar í beinni útsendingu þá er það prump og ekkert annað. Hvorki snilld né mikilfengleiki. Bara prump. Gildir þá einu hvort sá sem prumpar er frægur eða ekki eða hefur getið sér gott orð á öðrum vettvangi. Prump er prump. Gærkvöldið var prump. Vont kvöld hjá Rúv. Kvöldið sem fimm ára gömul börn kusu frekar að vaska upp en horfa á keppnina til enda...
(Þessi fjölmiðlarýni Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)