Dagfari velti í gær fyrir sér spurningunni hvort hlutverki Samfylkingarinnar í íslenskum stjórnmálum væri lokið? Vitnað var í orð Sighvats Björgvinssonar fyrrum ráðherra, þingmanns og formanns Alþýðuflokksins sem sagði hreint út að hlutverki flokksins væri lokið. Samfylkingin hafi misst sjónar á hlutverki sínu fyrir nokkrum árum og því þyrfti enginn að vera undrandi á fylgishruni flokksins. Fyrir liggur að Samfylkingin hefur misst fylgi úr 30% árið 2009 niður í 6,5% samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum. Þetta kallast hrun á einföldu mannamáli. Í komandi viku ræðst hvort flokkurinn þurrkast út af Alþingi.
Mat Sighvats er ískalt en raunsætt. Hann er einn reyndasti stjórnmálamaður landsins og veit hvað hann syngur. Fáir núlifandi Íslendingar hafa meiri þekkingu á innviðum miðju-og vinstriflokka landsins en hann. Gildir það jafnt um núverandi stöðu og sögulegar staðreyndir hálfa öld aftur í tímann eða lengra.
Eftir nánari umhugsun og skoðun á stöðu Samfylkingarinnar nú, hefur Dagfari komist að þeirri niðurstöðu að hlutverki Samfylkingarinnar sé lokið og að öllum væri fyrir bestu að flokkurinn dytti út af Alþingi í kosningunum eftir viku. Aðrir geta hæglega tekið við hlutverki Samfylkingar, flokkar sem eru betur skilgreindir og hafa sýn á hvert þeir stefna. Það litla sem er eftir af fylgi Samfylkingar getur hæglega farið yfir á VG hvað varðar þá sem eru lengst til vinstri, Björt framtíð er vinstri-krataflokkur sem getur tekið við hlutverki Samfylkingar eins og hún var þegar flokkurinn vissi hvert hann var að fara. Hægri hlutinn sem eftir er innan flokksins getur svo átt sér skjól í Viðreisn sem er miðju-og hægriflokkur, að hluta til líkur gamla Alþýðuflokknum og því heppilegur áfangastaður fyrir hægri krata.
Ein ástæða þess hve hnignun Samfylkingar hefur verið hröð á síðustu vikum og mánuðum er heimatilbúinn forystuvandi sem hófst með framboði Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur úr launsátri að undirlagi Jóhönnu Sigurðardóttur. Það leiddi til óþolandi stöðu Árna Páls Árnasonar sem formanns. Hann ákvað að víkja og þá hafði Oddný Harðardóttir sigur og leiðir flokkinn núna – jafnvel endanlega fram af brúninni.
Dagfari minnist orða Magnúsar Orra Schram sem bauð sig fram til formanns og tapaði fyrir Oddnýju. Hann sagði að Samfylkingin væri ónýtt vörumerki (logo). Þetta þótti frekt hjá hinum unga frambjóðanda en nú er komið á daginn að þetta var hárrétt mat hjá Magnúsi Orra. Hann sá lengra en hinir frambjóðendurnir. Hann gerði sér grein fyrir því að Samfylkingin væri á leið til endalokanna að óbreyttu. Flokksþing valdi óbreytt ástand og því eru jafnar líkur á því að Samfylking lifi naumlega af eða hverfi út af Alþingi eftir kosningarnar á laugardaginn kemur.
Hverfi Samfylkingin af þingi verða aðrir flokkar ekki í neinum vandræðum með að ýta áfram þeim málum sem flokkurinn hefur þó látið sig varða, t.d. Evrópumálin sem Björt framtíð, Píratar og Viðreisn fara létt með að berjast fyrir innan Alþingis.
Staða Samfylkingarinnar viku fyrir kosningar sýnir okkur að stjórnmálakerfið á Íslandi er í stórkostlegri endursköpun. Tími fjórflokksins er endanlega liðinn undir lok. Þessi þróun er rétt að byrja.