Vinstri grænir mælast nú með mesta fylgið í öllum skoðanakönnunum og flest bendir til þess að Katrín Jakobsdóttir muni leiða næstu ríkisstjórn. Katrín hefur verið vinsælasti stjórnmálamaður landsins í langan tíma enda tefla Vinstri grænir henni einni fram í fjölmiðlum alls staðar þar sem því verður komið við.
Vinstri grænir virðast ætla að treysta á að kjósendur séu búnir að gleyma vinstri stjórninna sem var við völd á Íslandi frá 2009 til 2013. Sú ríkisstjórn er á flesta ef ekki alla mælikvarða versta ríkisstjórn lýðveldistímans. Víst er að Steingrímur J. Sigfússon var af mörgum talinn grimmasti fjármálaráðherra í manna minnum og ekki bætti úr skák að hann hafði Indriða Þorláksson ávalt nærri sér til ráðgjafar. Indriða virtist aldrei skorta ráð til að hækka skatta á fólk og fyrirtæki meðan ráðgjafar hans naut við.
Í fjármálaráðherratíð Steingríms hækkaði tekjuskattur á fólk umtalsvert, virðisaukaskattur var aukinn, fjármagnstekjuskattur tvöfaldaðist, auðlegðarskattur á eldri borgara og efnamenn var innleiddur, atvinnuleysistryggingargjald á atvinnulífið hækkaði langt umfram aukningu atvinnuleysis, eldsneytisgjöld og áfengisskattar stórhækkuðu, einnig hækkuðu veiðileyfagjöld á sjávarútveg og meira að segja erfðafjárskattur var tvöfaldaður þannig að unnt væri að skattleggja fólk myndarlega út úr þessu tilverustigi.
Nú tala Vinstri grænir um að hækka skatta um 50 til 70 milljarða króna á ári en vilja ekki segja okkur hvernig á að gera það. Reynslan sýnir að Steingrímur J. Sigfússon hikar ekki við að innleiða miklar skattahækkanir, fái hann umboð til þess.
Kjósendur eiga heimtingu á að vita hvort Katrín Jakobsdóttir hyggist leiða Steingrím að ríkisstjórnarborðinu eftir kosningar og gera hann að fjármálaráðherra að nýju. Kjósendur geta enn brugðist við slíkum tíðindum.
Verði úrslit kosninganna í líkingu við þær skoðanakannanir sem hafa verið að birtast bendir allt til að vinstri stjórn yrði mynduð undir forystu Katrínar Jakobsdóttur þar sem Steingrímur J. Sigfússon færi með fjármálaráðuneytið og Svandís Svavarsdóttir með mikilvægt ráðuneyti en þau áttu öll sæti í vinstri stjórninni 2009 til 2013 – sem flestir vilja nú gleyma.
Kjósendum er óhætt að fara að hugsa um þessa þróun með persónum og leikendum inni í myndinni. Ekki nægir að horfa einungis á hráar tölur og prósentur.
Það eru ekki nema 4-5 ár síðan Vinstri grænir voru hér við völd. Sporin hræða.
Rtá.