Í þeirri örvæntingarfullu kosningabaráttu sem Davíð Oddsson og hans nánustu heyja nú vegna komandi forsetakosninga er allt reynt. Sumt kunnulegt eins og hvernig Davíð ræðst að keppinautum sínum með niðrandi ummælum, ósannindum og útúrsnúningum. Annað gengur út á að reyna að hefja þennan umdeilda mann upp til skýjanna og helst í guðatölu.
Það er ekki nýtt að lítill harðsnúinn vinahópur í kringum Davíð, svokölluð náhirð, reyni stöðugt að fegra ímynd hans og setja hann á stall sem mikilmenni þrátt fyrir margvíslegar misgerðir á löngum ferli. Nýlegt dæmi um það er margra blaðsíðna minningargrein sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson birti um Davíð í Morgunblaðinu. Greinin var myndskreytt með svipuðum hætti og gert er þegar þjóðhöfðingjar og stórskáld falla frá. Grein þessi var einstök í sinni röð fyrir það hve smekklaus hún var og langt frá raunveruleikanum. Hannes er eins og kunnugt er aðdáandi Davíðs nr. 1.
Nú bregður svo við að annar aðdándi hans, Jón Steinar Gunnlaugsson, birtir grein um forsetaframbjóðandann Davíð í Morgunblaðinu. Hún gengur út á að lýsa honum sem fórnarlambi auðmanna og vonda fólksins í Baugi. Jón talar um að þessir aðilar hafi staðið fyrir grófustu rógsherferð allra tíma gegn Davíð. Skilaboðin til kjósenda eru greinilega þau að nú sé kominn tími til að þjóðin huggi fórnarlambið Davíð með því að kjósa hann í æðsta embætti landsins þegar hann er kominn á efri ár og orðinn eftirlaunaþegi.
Þegar Jón Steinar Gunnlaugsson tekur til máls er hann þekktur fyrir að meina hvert orð sem hann segir. Hann er með öðrum orðum ekki að gera að gamni sínu með þessum skrifum. Jón er ekki gamansamur maður heldur mjög alvörugefinn. Í ljósi þess eru skrif hans um fórnarlambið Davíð enn furðulegri. Það hittist einmitt þannig á að Davíð hefur á sjö ára ferli sínum sem ritstjóri Morgunblaðsins, eftir að hann var rekinn öfugur út úr Seðlabanka Íslands sem hann skildi við gjaldþrota, staðið fyrir mögnuðum rógsskrifum í viku hverri um nafngreinda einstaklinga og reyndar einnig hópa og stjórnmálaflokka. Hafa rógsskrif Davíðs vakið mikla athygli og fyrirlitningu sem hefur m.a. leitt til þess að áskrifendum að blaðinu hefur fækkað til muna. Útbreiðsla blaðsins hefur hrunið vegna þess hve fólki misbýður framkoma Davíðs Oddssonar ritstjóra.
Tal Jóns Steinars um rógsherferð auðmanna kemur því úr allra hörðustu átt. Ekki síst í ljósi þess að Davíð hefur dvalið á Morgunblaðinu í skjóli mestu auðmanna vorra tíma á Íslandi. Hann er þarna í skjóli sægreifanna sem hafa efnast á gjafakvótakerfinu sem blaðið ver með kjafti og klóm undir ritstjórn Davíðs Oddssonar.
Vilji Jón Steinar Gunnlaugsson leggja frambjóðandanum lið í þessari vonlausu kosningabaráttu hans, ætti hann að gæta þess að kasta ekki fleiri steinum úr glerhúsi.